Skip to main content

Viðburðir

Málfar og handrit í Skagafirði í Kakalaskála

29. ágúst
2015
kl. 14–17

Málþing í Kakalaskála
Kakalaskála, Skagafirði
laugardaginn 29. ágúst kl. 14

Undanfarin tvö ár hafa verið haldin málþing um Sturlungu í Kakalaskála í Skagafirði. Að þingunum hefur einkum staðið félagsskapurinn “Á Sturlungaslóð” en fyrirlesarar hafa verið bæði úr hópi fræðimanna við Háskóla Íslands og heimamanna. Á fyrra þinginu var fjallað um ýmsa þætti Sturlungu frá sagnfræðilegu og bókmenntafræðilegu sjónarmiði en á því seinna var sérstaklega rætt um konur í Sturlungu. Nú er því mál til komið að taka fyrir málfar og handrit í Skagafirði og víðar, en jafnframt verður sjónarhornið víkkað og einskorðast ekki við Sturlungu.
 
Málþingið verður að þessu sinni haldið laugardaginn 29. ágúst og hefst kl. 14. Að því standa Kakalaskáli, Málvísindastofnun Háskóla Íslands, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og heimamenn. Eftirtalin erindi verða flutt:
 
Guðrún Þórhallsdóttir dósent: Heyr himna smiður þá og nú
Sálmurinn "Heyr, himna smiður," er líklega sá skagfirski forntexti sem oftast er fluttur hin síðari ár, eftir að Þorkell Sigurbjörnssona samdi við hann lag sem oft er sungið í kirkju. Í fyrirlestrinum verður fjallað um sálminn sem heimild um íslenskt mál á dögum höfundarins, Kolbeins Tumasonar, og vöngum velt yfir því hvort skáldið sneri sér við í gröfinni ef það heyrði sálminn sunginn núna.
 
Haraldur Bernharðsson dósent: Mál og mállýskur á fjórtándu öld
Rætt verður um nokkrar málbreytingar sem áttu sér stað í íslensku á fjórtándu öld og útbreiðslu þeirra. Ekki er líklegt að þessar breytingar hafi breiðst út um land allt í einni svipan og því hefur eflaust verið einhver mállýskumunur milli héraða. Sagt verður frá útbreiðslu valinna málbreytinga í þremur hópum handrita sem skrifuð voru á þremur ólíkum stöðum um miðja fjórtándu öld. Töluðu menn öðruvísi við Breiðafjörðinn en á Þingeyrum og í Eyjafirði?
 
Svanhildur Óskarsdóttir rannsóknardósent: Akramenn, Reynistaður og Gottskálk í Glaumbæ
Sum handrit líkjast meira bókasafni en stakri bók og gefa góða hugmynd um áhugamál og þarfir þeirra sem skrifuðu eða létu skrifa. Í Skagafirði hafa löngum starfað öflugir skrifarar og fróðleiksfúsir. Í erindinu verður fyrst hugað að bókagerð í kringum Akramenn á 14. öld en síðan vikið að tveimur afar hnýsilegum handritum með fjölbreytilegu efni: Reynistaðarbók, sem skrifuð var á ofanverðri 14. öld, og Sópuði síra Gottskálks Jónssonar í Glaumbæ (um 1524–1590) sem hann safnaði til meiripart ævi sinnar.
 
Eiríkur Rögnvaldsson prófessor: Sturlunga og Djúpdæla saga
Stefán Jónsson á Höskuldsstöðum skrifaði Djúpdæla sögu, ættarsögu Djúpadalsættarinnar, á þriðja áratug 20. aldar, en sagan segir frá fólki og atburðum á 18. og 19. öld. Við lestur sögunnar vekur athygli að stíll og setningagerð virðist í fljótu bragði nauðalíkt miðaldatextum eins og t.d. Sturlungu. Í erindinu verður skoðað að hvaða marki setningagerð fornmálsins birtist í Djúpdæla sögu og hvað hefur breyst.
 
Málþingsstjóri verður Guðrún Ingólfsdóttir bókmenntafræðingur.
 
Allir eru velkomnir og þátttökugjald er ekkert.
 
Kakalaskáli er á Kringlumýri í Blönduhlíð, 8 km frá Varmahlíð. www.skagafjordur.is/sturlungaslod/a-sturlungaslod/kakalaskali

2015-08-29T14:00:00 - 2015-08-29T17:00:00