Skip to main content

Viðburðir

Málstofa – Haukur Þorgeirsson

28. apríl
2017
kl. 15.30–17
Haukur Þorgeirsson

Málstofa: Síðustu skinnhandrit Sæmundar-Eddu og Snorra-Eddu. Haukur Þorgeirsson, rannsóknardósent á handritasviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Árnagarði við Suðurgötu, málstofuherbergi,  28. apríl 2017 kl. 15.30 (ath. breyttan fundartíma og fundarstað)

 

Síðustu skinnhandrit Sæmundar-Eddu og Snorra-Eddu

Á 17. öld lét Brynjólfur Sveinsson gera glæsilegt skinnhandrit með Eddukvæðum. Til verksins fékk hann Jón í Oddgeirshólum sem var skáld og listamaður. Uppistaðan var fengin úr Konungsbók Eddukvæða en safnið var aukið með kvæðum úr öðrum heimildum. Brynjólfur ritaði sjálfur titilinn Sæmundar-Edda í handritið. Jón í Oddgeirshólum er annars þekktastur fyrir að hafa smíðað öxi sem nefnd var Rimmugýgur og mun það verk einnig hafa verið að undirlagi Brynjólfs biskups. Bæði þessi verkefni sýna viðleitni til þess að endurskapa fortíðina. Bókin og öxin urðu báðar eldinum að bráð en varðveitt er teikning af öxinni og allmörg handrit sem líkur eru til að runnin séu frá Edduhandriti Jóns.

Frá 17. öld er hins vegar varðveitt glæsilegt handrit Snorra-Eddu, Codex Sparfvenfeldianus í Stokkhólmi. Um uppruna þessa handrits eru ekki beinar heimildir en vitað er að það var í höndum danskra fræðimanna árið 1646. Talið hefur verið að handritið sé ritað fyrir atbeina Þorláks biskups Skúlasonar en margt bendir til að verkbeiðandinn hafi fremur verið Brynjólfur biskup. Texti handritsins er að stofni til úr Konungsbók Snorra-Eddu en upphafið er fengið úr Laufás-Eddu og nokkrir leshættir úr Uppsala-Eddu. Handritið inniheldur Prologus, Gylfaginningu, Skáldskaparmál og Háttatal. Á fyrstu blöðum handritsins eru leiðréttingar á spássíum þar sem textinn hefur verið lesinn saman við Konungsbók. Þetta minnir á bók Jóns í Oddgeirshólum en vitað er að Brynjólfur ritaði þar sjálfur leiðréttingar á spássíuna.

Bækurnar tvær sýna viðleitni til að miðla texta Sæmundar-Eddu og Snorra-Eddu á fræðilegan hátt og til að gera heilsteyptan texta úr slitróttum handritum. Þær minna um margt á aðferðir seinni tíma fræðimanna og þá útgáfuhefð sem við búum enn við.

 

2017-04-28T15:30:00 - 2017-04-28T17:00:00