Skip to main content

Viðburðir

Málþing: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri: Tilurð, samhengi og söfnun

14.01.2017 - 12:30 to 14.01.2017 - 17:00
Innsigli Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara

Málþing
Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri: Tilurð, samhengi og söfnun
Fyrirlestrasal Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns
14. janúar 2017 kl. 12:30–17:00.

 

Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri: Tilurð, samhengi og söfnun

 

Málþing haldið í fyrirlestrarsal Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Þjóðarbókhlöðu 14. janúar kl. 12:30–17:00.

 

Dagskrá:

12:30–12:45          Kynning á rannsóknarverkefninu „Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri: Tilurð, samhengi og söfnun 1864–2014“

12:45–13:15          Terry Gunnell: Tilgangur þjóðsagnasöfnunar Jóns Árnasonar

13:15–13:45          Rósa Þorsteinsdóttir: Hver er hvurs og hvurs er hvað? Safnarar, skrásetjarar og sagnafólk

13:45–14:15          Örn Hrafnkelsson: Jón Árnason og stafræn hugvísindi

14:15–14:45          Aðalheiður Guðmundsdóttir: Leitin að eldinum

14:45–15:15          Kaffihlé

15:15–15:45          Romina Werth:  Konrad Maurer: Bréf hans, vinasambönd og þunglyndið

15:45–16:15          Elsa Ósk Alfreðsdóttir:  Pennavinir heima og heiman

16:15–16:45          Júlíana Þóra Magnúsdóttir: Jón Árnason! Hvar eru konurnar?

 

Málþingsstjóri er Halldóra Kristinsdóttir.

 

Rannsóknarverkefnið „Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri: Tilurð, samhengi og söfnun 1864–2014“ er unnið í samstarfi starfsfólks við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Háskóla Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og styrkt af RANNÍS.

Félag þjóðfræðinga á Íslandi stendur einnig að málþinginu.

 

Innsigli Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara

 

Útdrættir

 

Terry Gunnell: Tilgangur þjóðsagnasöfnunar Jóns Árnasonar

Borin verður saman sýn Herders, Grimms, Finns Magnússonar, Konráðs Gíslasonar, George Stephens, Jóns Árnasonar, Jóns Sigurðssonar, Guðbrands Vigfússonar og Sigurðar Guðmundssonar á tilgang þjóðsagnasöfnunar. Var ætlunin að safna fornfræðum, finna fornar rætur, finna þjóðarsálina, finna núlifandi skáldskap þjóðarinnar (frekar en forn fræði) og/eða finna viðeigandi efni fyrir nýjar þjóðlegar bókmenntir?

 

Rósa Þorsteinsdóttir: Hver er hvurs og hvurs er hvað? Safnarar, skrásetjarar og sagnafólk

Sagt verður frá þjóðsagnasafnaranum Jóni Árnasyni og söfnunaraðferðum hans.  Hann skráði sjálfur sögur eftir fólki en ennþá fremur fékk hann aðra til að safna fyrir sig víða um land. Þeir safnarar fengu síðan enn annað fólk til að skrásetja og segja sögur. Víðtæk tengslanet urðu þannig til og er ætlunin að gera grein fyrir þeim og taka dæmi.

 

Örn Hrafnkelsson: Jón Árnason og stafræn hugvísindi

Í erindinu verður tæpt á ýmsu hvað varðar stafræn hugvísindi og tilraun til að veita aðgang um net að ýmiskonar gögnum er varða Jón Árnason og þjóðsagnasöfnun hans.

 

Aðalheiður Guðmundsdóttir: Leitin að eldinum

Í fyrirlestrinum verður Ævintýragrunnurinn – gagnagrunnur yfir útgefin ævintýri – kynntur og notkunarmöguleikar hans raktir. Að því loknu verður litið nánar á ævintýragerð nr. AT/ATU 480 og varðveitt tilbrigði hennar á Íslandi. Dæmi um ævintýri af þessari gerð eru Olbogabarnið, Karlsdæturnar þrjár og Sagan af Helgu og systrum hennar, sem allar voru prentaðar í safni Jóns Árnasonar. Sagan segir af stúlku sem er send til að sækja eld og kemur að fjalli, þar sem hún ratar inn í helli og þarf að leysa ákveðnar þrautir. Gerðin er skyld sögunni af Öskubusku og öðrum sögum af kolbítum, þar sem óefnileg hetja eða hetja af lágum stigum sýnir mannskosti sína og fær að launum konungborinn maka. En auk þess sem sagnamynstrið virðist hafa notið talsverðra vinsælda á 19. öld, þegar sögurnar voru skráðar eftir munnumælum, lítur út fyrir að það eigi sér langa hefð að baki. Í fyrirlestrinum verður litið til hliðstæðra frásagna í ævintýrasögum síðmiðalda og einstök minni gerðarinnar jafnvel rakinn enn lengra aftur, í norrænar miðaldasögur og -kvæði.

 

Romina Werth: Konrad Maurer: Bréf hans, vinasambönd og þunglyndið

Eins og titillinn gefur til kynna mun þessi fyrirlestur greina frá fremur persónulegri hlið Konrads Maurer eða vináttu hans við Guðbrand Vigfússon og Jón Árnason eins og hún birtist í bréfasamskiptum þeirra. Auk þess verður fjallað um veikindi og þunglyndi Maurers á söfnunarárunum sem hann tjáir sig mjög opinskátt um í bréfum sínum.

 

Elsa Ósk Alfreðsdóttir: Pennavinir heima og heiman

Jón Árnason skildi eftir sig viðamikið bréfasafn en hann skrifaðist á við fjölmarga bæði heima og heiman. Safnið er varðveitt í 40 öskjum á Árnastofnun hér á landi og í 3 öskjum í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn. Í þessu erindi verður umfangi bréfasafnsins lýst og sjónum helst beint að þeim bréfum sem geymd eru utan. Efnistök bréfanna eru margvísleg og hverfast einna helst um þjóðsagnasöfnun hans, bókaumsýslu og embættisverk en einnig finnast þar bréf um ástir og ævintýraþrá, vináttu og brostna drauma.

 

Júlíana Þóra Magnúsdóttir: Jón Árnason! Hvar eru konurnar?

Í erindinu verður rætt um hlutdeild kvenna í þjóðsagnasöfnun Jóns Árnasonar en ljóst er af þjóðsagnahandritum hans að þær eru mjög fáar meðal þeirra einstaklinga sem skrásettu sagnir fyrir hann. Enn sérkennilegra er þó hversu lágt hlutfall nafngreindra sögumanna þær eru í þjóðsagnahandritunum í ljósi útbreiddra hugmynda þjóðernis-rómantíkur um konur sem mikilvæga varðveitendur og miðlara munnlegs menningararfs. Rætt verður um þessa þverstæðu og velt upp nokkrum mögulegum skýringum á lítilli þátttöku nafngreindra kvenna í söfnun Jóns.

 

 

2017-01-14T12:30:00 - 2017-01-14T17:00:00
Skrá í dagbók
-