Skip to main content

Endurbætur á Íslensku orðaneti

Íslenskt orðanet eftir Jón Hilmar Jónsson fór í loftið í núverandi útgáfu árið 2016. Vefurinn veitir aðgang að yfirgripsmiklu yfirliti um íslenskan orðaforða og innra samhengi hans. Þar má fletta upp orðum og orðasamböndum og sjá hvernig aðrar flettur tengjast í gegnum samsetningar. Vefinn má því nota svipað og samheitaorðabók og til að fá betri innsýn inn í orðaforðann.

Til stendur að opna endurbættan vef þar sem ýmsar nýjungar verða kynntar. Nýi vefurinn verður í grundvallaratriðum eins og núverandi vefur en helsta viðbótin er ný myndræn birting á venslum milli orða og orðasambanda. 

Nýja viðmótið mun til að mynda bjóða upp á að sjá á myndrænan hátt grannheiti (samheiti) orða ásamt næstu nágrönnum. Þannig geta notendur fikrað sig áfram um orðanetið á myndrænan hátt. Einnig verður hægt að skoða vensl á milli tveggja flettna og sjá hvaða flettur eru á milli, nokkurs konar ættrakning orða. Ný vefsíða orðanetsins er enn á vinnslustigi en vonir standa til að hún verði opnuð síðar á þessu ári.