Meginefni Flateyjarbókar er sögur af Noregskonungum. Í fyrri hlutanum eru fyrirferðarmestar Ólafs saga Tryggvasonar (d. 1000), sérstök gerð þeirrar sögu sem er nefnd hin mesta, og Ólafs saga helga (d. 1030), að meginstofni sérstaka sagan eftir Snorra Sturluson sem hann samdi á undan Heimskringlu.
Í síðari hluta Flateyjarbókar eru m.a. sögur Sverris konungs (d. 1202) og Hákonar gamla (d. 1263). Sverris saga er elsta stóra Noregskonungasagan sem til er. Fyrri hluti hennar, og ef til vill sagan öll, er eftir Karl Jónsson, ábóta á Þingeyrum. Upphaf sögunnar er ritað eftir forsögn Sverris sjálfs en framhaldið eftir sögn kunnugra samtíðarmanna. Hákonar saga er samin af hinum kunna sagnaritara Sturlu Þórðarsyni.
Þeirri hugmynd hefur verið hreyft að í Flateyjarbók hafi í öndverðu ekki átt að vera sögur fleiri Noregskonunga en Ólafanna tveggja og bókin hafi verið ætluð þriðja konunginum með því nafni, Ólafi Hákonarsyni. Sá Ólafur dó eða hvarf á unglingsaldri 1387 sama árið og þessi hluti Flateyjarbókar var skrifaður og með honum dó út norska konungsættin frá Haraldi hárfagra.