AM 227 fol. er í hópi glæsilegustu handrita í hinu mikla safni Árna Magnússonar og ber íslenskri bókagerð um miðbik 14. aldar fagurt vitni. Í handritinu eru þýðingar á nokkrum bókum Gamla testamentisins með ívafi skýringargreina úr lærdómsritunum Historia scholastica eftir Petrus Comestor og Speculum historiale eftir Vinsentíus frá Beauvais. Þessi ritasamsteypa er kölluð Stjórn og nær það heiti yfir þetta handrit og nokkur önnur sem varðveita sömu rit.
Nafnið hefur sennilega ekki fylgt handritunum frá upphafi heldur mun það vera frá 16. eða 17. öld. Uppruni og merking nafngiftarinnar er ekki með öllu ljós en nærtækt er að ætla að hún vísi til stjórnar Guðs á sköpunarverkinu.
Handritið er tvídálka með stórum spássíum og víða eru stórir, skreyttir og litaðir stafir, dregnir út úr leturfleti. Það er í bandi frá biskupstíð Þórðar biskups Þorlákssonar (1674–1697); eru það pappaspjöld klædd skinni með meitlaðri skreytingu á kápu og kili með tveimur spennslum.