Skip to main content

Fréttir

Ævintýragrunnurinn afhentur Árnastofnun

Ævintýragrunnurinn er gagnagrunnur yfir útgefin ævintýri sem gerður var að frumkvæði Aðalheiðar Guðmundsdóttur sem einnig er ritstjóri hans. Þegar hann var fyrst gerður aðgengilegur og leitarbær árið 2016 fól hann í sér upplýsingar um rúmlega 550 tilbrigði íslenskra ævintýra. Nú þegar grunnurinn hefur verið birtur við hlið þjóðfræðisafns Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum verður mögulegt að leita að ævintýrum bæði í prentuðum söfnum og í hljóðritum í sömu leit.

Ævintýragrunnurinn hefur að geyma bókfræðilegar upplýsingar um hvert ævintýri fyrir sig ásamt upplýsingum um endurútgáfur, ef við á. Þá er einnig að finna upplýsingar um heimildarmenn og skrásetjara sem og þá frumheimild sem ævintýrið er upphaflega sótt í, þ.e. safnmark handrits eða segulbands. Að auki hafa verið færðar inn frekari skýringar eða tilvísanir í önnur rit sem gert er ráð fyrir að muni nýtast við rannsóknir. Að lokum má kalla fram útdrátt úr hverju ævintýri og eru þeir flestir ítarlegir. Leitast var við að nefna öll þau efnisatriði sem fyrir koma í hverju ævintýri fyrir sig og segja má að útdrættirnir komi að nokkru leyti í staðinn fyrir efnisorðaskrá.

Á aðventunni afhenti Aðalheiður Árnastofnun grunninn til eignar og umráða.

Af því tilefni skrifuðu Guðrún Nordal forstöðumaður stofnunarinnar og Aðalheiður undir samning sem staðfestir móttöku Ævintýragrunnsins.

Ævintýragrunnurinn á Ísmús.