Skip to main content

Fréttir

Afkomandi Wagners skoðar Konungsbækur

Barnabarnabarn óperuskáldsins Richards Wagners, Eva Wagner Pasquier, kom í heimsókn á Árnastofnun föstudaginn 27. október sl. til að skoða Konungsbók eddukvæða og Snorra Eddu, helstu heimildir óperusveigs langafa hennar um Niflungahringinn.

Eva Wagner kom til landsins í boði Wagnerfélagsins á Íslandi og sat ársfund félagsins þá um kvöldið. Eva var lengi listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri óperuhátíðarinnar í Bayreuth og m.a. forstjóri Royal Opera House Covent Garden í London, og dagskrárstjóri hjá Opéra Bastille í París. Þá er hún listrænn ráðgjafi þekktra óperuhúsa á borð við Metropolitanóperuna í New York og ýmissa tónlistarhátíða.

Þetta var fyrsta Íslandsheimsókn Evu en Wolfgang faðir hennar, sonur Sigfrieds yngsta sonar gamla Richards, kom hingað til lands í tengslum við heimsfrumsýningu á styttri gerð Niflungahringsins í Þjóðleikhúsinu árið 1994. Wolfgang vitjaði þá einnig um sömu handritagersemar í Árnastofnun og Eva kom til að skoða.

Í föruneyti Evu Wagner voru formaður Wagnerfélagsins á Íslandi Selma Guðmundsdóttir, Árni Björnsson helsti kunnáttumaður heimsins um heimildanotkun Wagners við samningu Niflungahringsins, og Sólrún Jensdóttir stjórnarmaður í Wagnerfélaginu.