Skip to main content

Fréttir

Árleg ráðstefna CLARIN haldin í Leuven

Gömul samliggjandi hús úr múrsteini. Litlar viðbyggingar úr gleri. Í forgrunni snyrtilegir runnar og grasflöt.
Ráðstefnan fór fram í Iers College í Háskólanum í Leuven.
Peter Mooney / Wikimedia Commons

Árleg ráðstefna CLARIN fór fram í Leuven í Belgíu 16.−18. október. Að þessu sinni var fjölmennt frá Íslandi en alls sóttu sjö Íslendingar ráðstefnuna. Starkaður Barkarson, landsfulltrúi CLARIN á Íslandi, Fjóla K. Guðmundsdóttir sem situr í nefnd CLARIN um notendaþátttöku og Steinþór Steingrímsson, verkefnisstjóri í upplýsingatækni, fóru frá Árnastofnun. Auk þess að sækja ráðstefnuna sátu þau nefndarfundi og vinnustofur sem styðja við starfsemi CLARIN á Íslandi.

CLARIN er eitt af rannsóknarinnviðaverkefnum Evrópusambandsins og Árnastofnun hefur verið aðili að verkefninu síðan það var sett á laggirnar hér á landi. Meginmarkmið CLARIN er að öll stafræn málföng og búnaður frá allri Evrópu (og víðar) verði aðgengileg með einni innskráningu á netið, til nota í rannsóknum í hug- og félagsvísindum og innan máltækni.

Fleiri Íslendingar en starfsmenn Árnastofnunar sóttu ráðstefnuna. Þórunn Arnardóttir og Agnes Sólmundsdóttir fóru frá Háskóla Ísland og kynntu tvö verkefni sem þær tóku þátt í. Þórunn kynnti IceFlash 4K, fjölmála gagnagrunn með 4.000 algengustu orðum íslenskrar tungu, en orðin má einnig nálgast á sniði minnisspjalda sem gagnast í kennslu. Agnes kynnti ACoDe-verkefnið, en ACoDe stendur fyrir „Assessing Cognitive Decline using automatic language analysis“. Tilgangur verkefnisins er að skoða með nákvæmum hætti breytingar í heila vegna vitrænnar skerðingar af völdum alzheimers-sjúkdómsins og að rannsaka tengsl þessara breytinga við málnotkun. Einnig var með í för Guolin Fang, doktorsnemi við HR, sem kynnti doktorsverkefni sitt á ráðstefnunni. Verkefni Guolins miðar að því að gjörbylta notkun á innmerkjum í talgervli með því að samþætta klassíska talmerkjavinnslu og vélanámslíkön. Síðast en ekki síst sótti ráðstefnuna Eiríkur Rögnvaldsson en honum voru veitt sérstök verðlaun sem kennd eru við Steven Krauwer, fyrsta framkvæmdastjóra CLARIN. Nánar má lesa um það í frétt um verðlaunaafhendinguna.