Skip to main content

Fréttir

Branislav rannsakar tölvustudda tungumálakennslu

Branislav Bédi hóf störf sem verkefnisstjóri á alþjóðasviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 1. apríl 2019. Branislav vinnur að doktorsverkefni á sviði annarsmálsfræða við hugvísindasvið Háskóla Íslands. Hann hefur gegnt starfi stundakennara í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands á árunum 2018–2019 og sat í jafnréttisnefnd hugvísindasviðs Háskóla Íslands 2016–2018.

Branislav sinnir fjölbreyttum verkefnum innan stofnunarinnar og hefur umsjón með alþjóðlegu sumarnámskeiði í íslensku og Nordkurs-námskeiði í íslensku fyrir norræna nemendur. Hann er jafnframt tengiliður stofnunarinnar við íslenskukennara erlendis, hefur umsjón með styrkjum í íslensku sem öðru máli á BA-stigi auk Snorrastyrkja. Branislav hefur einnig með höndum fyrirlestra Sigurðar Nordals sem haldnir eru árlega á vegum stofnunarinnar. Branislav er fulltrúi Íslands í Samstarfsnefnd um kennslu í Norðurlandafræðum erlendis (SNU).

​Branislav stundar rannsóknir á sviði tölvustuddrar tungumálakennslu með áherslu á íslensku sem annað mál ​og​ íslensk táknmá​l. Rannsóknir hans beinast einnig að hópvirkjun (e. crowdsourcing)​,​ ​gervigreind og málgreining​u.​