Skip to main content

Fréttir

Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur á Höfn

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar hinn 16. nóvember síðastliðinn. Að þessu sinni var hátíðin haldin í menningarmiðstöðinni Nýheimum á Höfn í Hornafirði.

Deginum hefur verið fagnað árlega frá árinu 1996 að tillögu mennta- og menningarmálaráðherra í því augnamiði að leggja sérstaka rækt við íslenskt mál í samvinnu við fjölmiðla, stofnanir og félög. Á degi íslenskrar tungu eru jafnan veitt Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstakar viðurkenningar í þágu íslenskunnar með stuðningi Íslandsbanka sem veitir verðlaunaféð.

Í ár hlaut Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar fyrir framlag sitt til íslensku. Þá hlaut verkefnið Skáld í skólum sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu. Rökstuðning ráðgjafarnefndar um tilnefningarnar má lesa á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Dagskráin í Nýheimum var fjölbreytt og lögðu margir heimamenn til hennar.