Skip to main content

Fréttir

Evrópsk MA-ritgerðasamkeppni innan efnissviðanna málnotkun, málstefna og margmála umhverfi

Samtökin EFNIL (European Federation of National Institutions for Language) standa að evrópskri samkeppni þar sem höfundar MA-ritgerða, frá 2019 og 2020, geta keppt um peningaverðlaun. Ritgerðirnar eiga að vera innan efnissviðanna málnotkun, málstefna og margmála umhverfi

Möguleika á verðlaunum haustið 2020 eiga ritgerðir sem lokið er, og háskólar hafa tekið gildar og gefið einkunn fyrir, eftir 1. jan. 2019 og fram til 30. júní 2020. Umsóknarfrestur er til 30. júní 2020 vegna verðlaunanna 2020. Síðan er annar frestur, til 31. des. 2020, vegna sams konar verðlauna sem verða veitt á næsta ári, 2021.

Aðeins þrjár MA-ritgerðir hvort ár fá verðlaun. Veittar eru 1.500 evrur fyrir hverja verðlaunaritgerð, auk boðs um fyrirlestur og birtingu á grein. 

 Viðfangsefni í ritgerðasamkeppninni sem koma til álita hjá EFNIL eru einkum á eftirfarandi sviðum:

• að læra tvö tungumál samtímis („bilingual language learning“)
• aðferðir við tungumálakennslu
• málnotkun í margmála umhverfi
• markmið og áhrif málstefnu
• samanburðarrannsóknir á málstefnu
• máltækni og margmála umhverfi
• þýðingar og túlkun

Ritgerðir sem fjalla um og greina pólitískar aðgerðir eða stefnu fá forgang.

Ritgerðin getur sem best fjallað um íslensku eða Ísland þar sem tungumálið eða tungumálin sem fjallað er um í ritgerðinni mega vera hvaða Evrópumál sem er. En sjálf ritgerðin þarf hins vegar að vera á einhverju opinberu málanna í ESB, t.a.m. ensku, dönsku, þýsku, frönsku, sænsku, spænsku o.s.frv. Ath. að þrátt fyrir útgöngu Breta er enska enn opinbert mál innan ESB, sbr. Írland og Möltu.

Sjá nánar um samkeppnina, mat á ritgerðunum og önnur atriði, á veffanginu http://www.efnil.org/master-thesis-award