Skip to main content

Fréttir

Fornbréfauppskriftir Árna Magnússonar

Nú eru aðgengilegar í handritahirslunni (https://hirslan.arnastofnun.is/myndir-af-apoacutegroumlfum.html) stafrænar ljósmyndir af þeim liðlega 6000 fornbréfauppskriftum (apógröfum) Árna Magnússonar sem varðveittar eru á handritasviði stofnunarinnar.

Árni Magnússon leitaði uppi fornbréf og skjalagjörninga af ýmsum toga allt frá miðöldum og fram á 18. öld (svo sem jarðakaupabréf, kaupmálabréf, arfaskiptabréf, landamerkjabréf, dóma og vísitasíur) og skrifaði upp eða lét skrifa upp fyrir sig á fyrstu áratugum 18. aldar. Skjalauppskriftirnar eru í 76 merktum bögglum sem skipt er í sex flokka. Bögglarnir bera safnmarkið AM Apogr. Dipl. Isl. auk númers flokks og bögguls. Þá hefur hvert skjal innan bögguls sitt númer.

Sum fornbréfin sem skrifað var eftir eru enn varðveitt en önnur hafa glatast í tímans rás. Hér er því um að ræða merkilegar sögulegar heimildir sem tímabært er að gera aðgengilegar hverjum sem hefur á þeim áhuga.