Skip to main content

Fréttir

Fréttir af ársfundi Vinafélags Árnastofnunar

Vinafélag Árnastofnunar hélt aðalfund sinn síðasta vetrardag 24. apríl 2019. Þangað mættu þrjátíu félagar en rúmlega 500 eru skráðir í vinafélagið. Andri Árnason hæstaréttarlögmaður var fundarstjóri.

Í máli starfandi formanns, Kristjáns Kristjánssonar, kom fram að félagið hafi lagt forvörslu Flateyjarbókar lið með því að vekja athygli stjórnvalda á nauðsyn fjárveitingar svo að bókin verði hæf til sýningar í náinni framtíð. Kristján minntist einnig Sigurðar Svavarssonar sem var fyrsti formaður félagsins frá vori 2016 til haustsins 2018 en hann féll frá fyrir aldur fram í fyrra.

Helsta samstarfsverkefni Vinafélagsins og Árnastofnunar í fyrra var myndvarpagjörningur á Vetrarhátíð 2018 þar sem nýjum íslenskum orðum sem tengjast tölvutækni var varpað ásamt enskum þýðingum á vegg nýsköpunar- og atvinnuvegaráðuneytisins við Skúlagötu.

Reikningar félagins voru lagðir fram og nýr stjórnarmaður kjörinn, Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir. Í lok fundar voru veittar viðurkenningar til tveggja nema sem stunda framhaldsnám í íslensku við Háskóla Íslands: Halldór Xinyu Zhang fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í íslenskum bókmenntum og Ásbjörg Benediktsdóttir fyrir framúrskarandi árangur í íslenskri málfræði. Bæði sögðu þau nokkur orð er þau veittu viðurkenningunum viðtöku.

Í lok dagskrár veittu Eiríkur Rögnvaldsson og Anna Björk Nikulásdóttir innsýn í máltækni. Eiríkur reið á vaðið með því að segja frá stöðunni í Verkáætlun í máltækni 2018–2022 og frá nýrri skrifstofu CLARIN á Íslandi og verkefnum henni tengdri. Anna Björk fræddi fundarmenn um gervigreind og nytsemi hennar.

Í lok dagskrár gaf tækifæri til að spyrja Eirík og Önnu. Þar kom fram að mikinn mannafla þurfi til að þoka máltækniverkefnum í rétta átt.