Skip to main content

Fréttir

Frímerki

Frímerki: Handrit – 350 ára minning Árna Magnússonar.

 

Gefin hafa verið út tvö ný frímerki í sameiginlegri útgáfu Íslandspósts og danska póstsins: Handrit – 350 ára minning Árna Magnússonar. Einnig verður gefin út smáörk með þessum frímerkjum undir sama útgáfuheiti.

Myndefnin í frímerkjaútgáfunni eru fengin úr handritum úr safni Árna Magnússonar í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Reykjavík og Nordisk Forskningsinstitut í Kaupmannahöfn. Handritin eru Kálfalækjarbók, sem hefur að geyma Njáls sögu, og danskt handrit sem inniheldur lög fyrir Sjáland. Árni Magnússon er þekktastur fyrir að hafa safnað handritum á Íslandi og víðar og fyrir Jarðabókina, sem hann skrifaði ásamt Páli Vídalín, sýslumanni. Manntal sem þeir létu taka er nú á skrá UNESCO yfir minni heimsins sem fyrsta þjóðarmanntal sem er varðveitt. Árni fæddist á Kvennabrekku í Dölum 13. nóvember 1663. Hann fór til náms í guðfræði í Kaupmannahöfn og starfaði þar æ síðan þótt hann dveldi einnig langdvölum á Íslandi. Árni kom sér upp viðamesta safni íslenskra og norskra handrita frá miðöldum sem um gat. Í brunanum mikla í Kaupmannahöfn í október 1728 brann hluti af bókasafni Árna. Ætlaður missir handritanna bugaði Árna og hann lést rúmu ári síðar, 66 ára að aldri. Íslendingar sömdu við Dani um skiptingu safnsins árið 1961. Fyrstu handritin komu aftur til Íslands áratug síðar. Handritasafn Árna Magnússonar var sett á skrá UNESCO yfir minni heimsins árið 2009.