Skip to main content

Fréttir

Fyrir hverja eru Nordkurs námskeiðin?

Saga Nordkurs – sumarnámskeiðs í íslensku fyrir norræna nemendur – er löng. Árið 1955 var ákveðið að bjóða upp á kennslu norrænna tungumála og menningu í mismunandi háskólum á Norðurlöndum, og þannig efla möguleika nemenda til að kynnast skandinavískri menningu. Fyrsta námskeiðið var haldið í Kaupmannahafnarháskóla sama ár. Þetta framtak hefur tekist mjög vel og árlega hefur nemendum fjölgað. Sumarnámskeið  Nordkurs í íslensku var fyrst haldið árið 1959 í Reykjavík og síðan hvert þriðja ár þangað til 1974 þegar byrjað var að halda það annað hvert ár. 

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sér nú árlega um skipulagningu sumarnámskeiðs á vegum Nordkurs. Nú í sumar 2019 var 21 þátttakandi á námskeiðinu. Nemendur voru á aldrinum 21-57 ára frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Nemendur voru á mismunandi stigi í íslensku; sumir töluðu hana þegar reiprennandi en komu hingað til að bæta kunnáttu sína og fá tækifæri til að æfa sig í talfærni. Aðrir voru byrjendur sem höfðu lært tungumálið í stuttan tíma í háskóla í heimalandi sínu eða á vefnámskeiðinu Icelandic Online. Eftir fjórar vikur á hraðnámskeiði í íslenskri tungu og menningu, sem saman stóð af 60 tímum í máli og 10 tímum í menningu, dagsferðum og heimsóknum á söfn hafa þau lært mikið um tungumál, menningu, náttúru og ekki síst lífsstíl Íslendinga. Hér á eftir má lesa viðtal við tvo nemendur sem segja frá reynslu sinni og upplifun á námskeiðinu. Því má bæta við að allt viðtalið fór fram á íslensku.

Sara Juntunen

Sara Juntunen er 25 ára gömul og kemur frá Finnlandi. Hún stundar nám í Norrænum tungumálum í Háskólanum í Tampere og segist hafa lært íslensku aðeins í stuttan tíma áður en hún kom hingað og telst því í hópi byrjenda. Nemendur i Tampere þurfa að læra eitt annað norrænt mál og vegna brennandi áhuga hennar á íslensku sótti hún um sumarnámskeið hér á landi. Hún segir að íslenskan sé „mjög fallegt og áhugavert tungumál“ þrátt fyrir að henni finnast forsetningar í íslensku erfiðastar (hlátur fylgir). Þó að málfræði geti verið erfið miðað við hin norðurlandamálin, sérstaklega finnsku, þá er „samt mjög gaman að læra [íslensku]” segir hún. Auk þessa á hún íslenska vini og vill gjarnan tala við þá á þeirra tungumáli. 

Á námskeiðinu gafst henni tækifæri til að kynnast betur íslenskri menningu. Hún segir að Ísland og Finnland séu mjög lík lönd að sumu leyti en „það er bara kannski einn lítill munur og hann er sá að Íslendingum finnst þeirra saga mjög mikilvæg“ sem kannski er ekki eins áberandi hjá fólki í heimalandi hennar. Auk þess segir hún að Ísland hafi gefið henni tækifæri til að gera margt fleira en að læra tungumálið: „Ég hef verið í einni íslenskri kvikmynd og hef verið Víkingur í Víkingahátíð í Hafnarfirði, og ég hef skotið með langboga. En í Finnlandi ég mundi kannski ekki gera svo mikið“.

Hún segist hafa lært miklu meira um íslenskar bókmenntir, myndlist og kvikmyndir en hún myndi gera heima. „Það er ekki mikið talað um íslenska menningu í Finnlandi, kannski bara um Björk, Sigurrós en ekki mikið um annað“ segir hún. Eftir námskeiðið ætlar hún að ferðast um landið, æfa sig meira í íslensku og nota hana enn frekar í leiklistarstarfi hér á landi.

 

Karl Appelgren

Karl Appelgren er 28 ára gamall og kemur frá Svíþjóð. Hann lærir rússnesku við háskólann í Uppsölum og hefur verið áður á Nordkurs í Finnlandi. Honum fannst það mjög gaman og gagnlegt og þess vegna ákvað hann að koma aftur og að þessu sinni til Íslands. Samkvæmt honum hefur sumarnámskeiðið í íslensku verið mjög gott og skemmtilegt. Þó að hann hafi talað ágæta íslensku þegar hann mætti þá vildi hann bæta þekkingu sína á tungumálinu og menningu Íslands og að auki hefur hann fengið tækifæri til að tjá sig meira á íslensku. Hann segist vera mjög ánægður með námskeiðið.  „Ég þekkti málfræðina en ég gat ekki notað hana. Ég hafði ekki svo mikla reynslu, ég hafði lært íslensku bara í háskólanum, og ég hér hef lært mikið og til dæmis við þig, Branislav, hef ég næstum því alltaf talað íslensku. Ég hef gert kannski margar villur en þú hefur alltaf leiðrétt mig svo að ég hef lært hana betur.“ Varðandi almenna upplifun hans á námskeiðinu og landinu segir hann að fyrir honum var menningin hér í Reykjavík það áhugaverðasta. „Til dæmis þegar ég tók viðtal við Íslending þá var það barþjónn, sem vinnur á bar í Reykjavík, og ég tók viðtal við hann. Hann byrjaði að tala um lífið sitt. Hann hefur gert kvikmyndir, hann hefur unnið fyrir RÚV og við töluðum um menningu í yfir einn klukkutíma og það var svo gaman“ segir hann. Þegar hann var aðspurður hvort að barþjónninn hafði veitt honum athygli í allan þennan tíma þegar á viðtalinu stóð (það má kannski nefna að viðtal hafi verið partur af heimaverkefni nemenda), þá sagði hann að hann hefði verið eini viðskiptavinurinn á barnum. Eftir að hafa lært mikið um Ísland og Íslendinga segir hann að menningin hér á landi virðist vera mjög mikilvæg í hugum Íslendinga. „Hér á Íslandi eru til margir menn og konur sem hafa svona stóran áhuga á menningu“ og bætir að Reykjavík finnst honum menningarborg þótt að hún sé lítil. Hann lýkur viðtalinu með því að segja að áður en hann kom til Íslands vissi hann töluvert um íslenskar bókmenntir, myndlist og kvikmyndir enda hefur hann sjálfur mikinn áhuga á öllu þessu; hann hefur lesið Eddu, Íslendingasögur, og bækur eftir Halldór Laxness, Þórarin Eldjárn, og aðra nútímahöfunda, en námskeiðið hefur veitt honum enn betri innsýn í íslenskar nútímabókmenntir og nú á hann langan lista af mörgum bókum sem hann ætlar að lesa í framtíðinni. Honum fannst dagsferðir í námskeiðinu mjög skemmtilegar, sérstaklega sú seinni til Eyrarbakka og Suðurnesja. Hann vill koma aftur til Íslands og sjá meira af íslenskri náttúru, kannski Vestfirði sem dæmi má nefna en einnig til að læra meiri íslensku.