Skip to main content

Fréttir

Gerður Kristný hlýtur Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

Magnús Stefánsson, Lilja D. Alfreðsdóttir og Gerður Kristný

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, veitti Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 16. nóvember. Gerður Kristný, rithöfundur og skáld, fékk verðlaunin í ár við athöfn í Hörpu sem var streymt á vefmiðlum. Við sama tækifæri fékk Félag ljóðaunnenda á Austfjörðum sérstaka viðurkenningu á degi íslenskrar tungu. Magnús Stefánsson ritstjóri tók við viðurkenningunni fyrir hönd félagsins. 

Gerður Kristný rithöfundur

Hér má lesa rökstuðning ráðgjafanefndar ráðherra:

„Ég safnaði / mér saman // Rétti af brúnir / raðaði tönnum / reyrði inn lifur / og lungu // hnoðaði hjartað / í gang“, með þessum hætti yrkir skáldið Gerður Kristný sem í dag hlýtur Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Línurnar eru sóttar í ljóðabálkinn Blóðhófni en í honum endurtúlkar Gerður Kristný hin fornu Skírnismál með því að segja sögu jötnameyjarinnar Gerðar frá hennar eigin sjónarhorni – það sem gjarna hafði verið túlkað sem ástarsaga hennar og Freys verður að sögu um ofbeldi. Með Blóðhófni bætti Gerður við nýrri rödd í fjölraddakór Eddukvæða, gaf fortíðinni mál, en það sama gerði hún sem blaðamaður og rithöfundur þegar hún gaf þolendum kynferðisofbeldis í samtímanum færi á að segja sögur sínar bæði á síðum Mannlífs sem Gerður Kristný ritstýrði og bókinni Myndinni af pabba – Sögu Thelmu. „Bærinn / reistur úr / raunum // Þakið úr þögn // Innviðir /klæddir úr illsku“, ef þessar línur úr Blóðhófni lýsa því sem kalla mætti launkofa þá má segja að Gerður Kristný hafi rofið þekju hans með verkum sínum. 

Við veitingu verðlaunanna að þessu sinni er tekið mið af fjölhæfni verðlaunahafans, en hún hefur skrifað fjölda bóka fyrir bæði börn og fullorðna, verk hennar hafa verið sett upp á leiksviði, ljóð hennar sungin auk þess sem hún hefur kennt fjölmargar ritsmiðjur fyrir börn. Rödd Gerðar Kristnýjar er mikilvæg í íslensku samfélagi ekki aðeins vegna þess hvernig hún segir hlutina heldur líka vegna alls þess sem hún hefur að segja. 

Félag ljóðaunnenda á Austurlandi hefur starfað í á þriðja áratug. Það hefur vakið verðskuldaða athygli á skáldum og skáldskap landsfjórðungsins með vönduðu útgáfustarfi. Í því sambandi má nefna sýnisbókina Raddir að austan (1999) sem hefur að geyma ljóð eftir 122 þálifandi skáld og ritröðina Austfirsk ljóðskáld sem hóf göngu sína í upphafi nýrrar aldar en í henni hefur komið út a.m.k. ein ljóðabók á ári síðan. Nú fyrir skömmu gaf félagið út Hugurinn einatt hleypur minn þar sem er birtur og rakinn kveðskapur og æviferill Guðnýjar Árnadóttur, Skáld-Guðnýjar, 1813–1897, en hún var fátæk húskona og ljósmóðir á Fljótsdalshéraði og í Lóni um sína daga.

Magnús Stefánsson

Félag ljóðaunnenda á Austurlandi hefur með félagsstarfi sínu hlúð að grasrótinni í íslenskum skáldskap, aukið við flóru íslenskra góðskálda og haldið í heiðri minningu eldri skálda sem nú eru gengin. Félag ljóðaunnenda hefur sýnt að á Austurlandi er ekki aðeins, eyjaval, eins og Jónas Hallgrímsson orti heldur líka skáldaval. Af þeim sökum fær Félag ljóðaunnenda á Austurlandi sérstaka viðurkenningu fyrir störf í þágu íslensks máls á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar." 

Ingunn Ásdísardóttir var formaður ráðgjafanefndar ráðherra. Aðrir nefndarmenn voru Haukur Ingvarsson og Katrín Olga Jóhannesdóttir.