Skip to main content

Fréttir

Góðar viðtökur ritsins Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar

 

Guðrún Ingólfsdóttir, sem verið hefur gestafræðimaður hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, hlaut nýverið Menningarverðlaun DV 2016.  Þetta er ekki eina viðurkenningin sem verk hennar, Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar, hefur hlotið því að bókin var einnig tilnefnd til viðurkenningar Hagþenkis og  Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2016. Bókin kom út hjá Háskólaútgáfunni síðla árs 2016 og er tuttugasta bókin í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar.

Guðrún Ingólfsdóttir segir viðtökur bókarinnar hafa komið sér þægilega á óvart því að fræðibækur fái yfirleitt ekki mikla almenna umfjöllun: „Ég lagði mig fram um að skrifa rit sem stenst allar fræðilegar kröfur en er þó læsilegt hverjum sem er og var meðvituð um að fleiri en fræðimenn þyrftu að geta notið þess að lesa. Þess vegna er stíllinn á bókinni léttur og ég leyfði mér að skrifa af skemmtilegheitum þar sem því var við komið. Ég ákvað líka að skýra fræðileg hugtök, til dæmis þekkja ekki allir hvernig safnmörk handrita eru hugsuð, svo að ég skýrði það allt í inngangi bókarinnar. Það er alveg hægt að skrifa fræðirit sem allir geta lesið og það eru í raun bestu launin að frétta að alls konar fólk er að lesa bókina.“

Guðrún hefur víða farið og kynnt rannsókn sína og er á leið út fyrir landsteinana í þeim erindagjörðum. Hún segir að eftir því sem hún vinni meira með efnið sjái hún möguleika á frekari túlkunum og vonast hún til að aðrir og yngri fræðimenn geti nýtt sér rannsóknina til að halda áfram að skoða bókmenningu kvenna.

 

Guðrún Ingólfsdóttir.

 

(Ljósmynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson).