Skip to main content

Fréttir

Guðjón Friðriksson er handhafi Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar 2015

Guðjón Friðriksson handhafi Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar 2015.

 

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar hinn 16. nóvember síðastliðinn. Deginum hefur verið fagnað árlega frá árinu 1996 að tillögu mennta- og menningarmálaráðherra í því augnamiði að leggja sérstaka rækt við íslenskt mál í samvinnu við fjölmiðla, stofnanir og félög.

Á degi íslenskrar tungu eru jafnan veitt Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstakar viðurkenningar í þágu íslenskunnar með stuðningi Íslandsbanka sem veitir verðlaunaféð.

Í ár féllu Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar Guðjóni Friðrikssyni sagnfræðingi í skaut. Þá hlaut Bubbi Morthens sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu. Rökstuðning ráðgjafarnefndar um tilnefningarnar má lesa á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Í þakkarávarpi sínu minntist Guðjón arfleifðar Jónasar Hallgrímssonar og tilgerðarlauss, einfalds, ljóss og skáldlegs stíls hans. „Sjálfur hef ég viljað hafa það að leiðarljósi í bókum mínum að skrifa ljóst mál og einfaldan stíl en falla ekki í gryfjur tískufrasa, torskilinna fræðiheita, samanbögglaðra nýyrða eða uppskrúfaðra orðatiltækja,“ sagði Guðjón meðal annars í ræðu sinni.

Guðjóni eru aðstæður flóttafólks um þessar mundir hugleiknar og lét eftirfarandi orð falla:

Að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra er að niðurlægja sig – en að upphefja aðra er að
upphefja sjálfan sig. Þetta er auðvitað mótsögn en sönn fullyrðing að mörgu leyti. Hana
er vert að hafa til umhugsunar nú þegar haturs- stríð geisa og hermdarverk eru framin.
Öll erum við menn, hverrar þjóðar eða trúarbragða sem við tilheyrum. Flest fólk, hvar sem
það á heima, er heiðvirt og á sér sín ástarskáld sem það elskar og grætur yfir. Íranir eiga
sinn Omar Khajjam og Rússar Púskín.

Nú er margt heiðvirt fólk á flóttamannsveginum. Við getum hjálpað þessu vesalings fólki.
En við getum það ekki nema að hafa að ræktað okkur sjálf. Ef okkur þykir vænt um barnið
okkar, landið okkar og tungu, höfum við styrk til að þykja vænt um aðra. Illsku og hatur
skulum við uppræta.

 

Ræðu Guðjóns má lesa í heild sinni hér.

 

Guðjón Friðriksson og Bubbi á degi íslenskrar tungu 2015.