Skip to main content

Fréttir

Guðmundar sögur biskups II

Út er komið í ritröð Árnanefndar í Kaupmannahöfn, Editiones Arnamagnæanæ (Series B, vol. 7), annað bindi sagna um Guðmund góða Arason; sú gerð sem kölluð hefur verið B-gerð (GB). Guðmundur fæddist 1161 og var Hólabiskup frá 1203 til dauðadags 1237.

Guðmundar saga B var sett saman að miklu leyti eftir sömu heimildum og Guðmundar saga A (EA Series B, vol. 6 [1983]) en þar að auki nýtir hún nokkrar heimildir sem GA notar ekki. Báðar gerðirnar eru frá svipuðum tíma, trúlega fyrri hluta 14. aldar. Þá virðist hafa verið uppi nokkur hreyfing að fá helgi Guðmundar góða viðurkennda. Fyrir GB er formáli og inni í henni innskot með formálasniði í lærðari stíl en annar texti sögunnar – vottur um nokkra viðleitni til að færa efniviðinn í form heilagra manna sögu. Jarteinasafn hefur fylgt GB í handritum þar sem sagan er varðveitt. GB hefur ekki fyrr verið gefin út í heild sinni.

Stefán Karlsson (d. 2006) handritafræðingur og fyrrverandi forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi bjó textann til prentunar og ritaði ítarlegan inngang um handrit þau er hafa Guðmundar sögu B að geyma. Ritið kom út 2. desember 2018 en þá hefði Stefán orðið níræður.

Magnús Hauksson, lektor í íslensku við Kílarháskóla, ritstýrði útgáfunni.