Skip to main content

Fréttir

Heimsókn í Hús íslenskunnar

Bókasafnið skoðað

Starfsmenn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fengu nýverið tækifæri til að virða fyrir sér framtíðarstarfstöð sína í Húsi íslenskunnar sem nú rís við Arngrímsgötu í Reykjavík. Starfsmenn Ístaks tóku vel á móti hópnum og arkitektinn Ögmundur Skarphéðinsson leiddi hersinguna í gegnum bygginguna. Framkvæmdum á húsinu miðar vel og áætluð verklok eru seinni hluta árs 2022. Árnastofnun og námsbraut í íslensku og íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands flytjast í húsið árið 2023.

Í Húsi íslenskunnar mun gjörbreytast aðstaða fyrir rannsóknir, vörslu og miðlun og aðgengi almennings að stofnuninni stórbatna. Í húsinu verður miðstöð rannsókna og kennslu í íslenskum fræðum: tungu, bókmenntum og sögu. Þar verða einnig handritin hýst og rannsóknarbókasafn stofnunarinnar auk sýningarrýmis fyrir almenning.