Skip to main content

Fréttir

Helga Hilmisdóttir ráðin rannsóknarlektor

Dr. Helga Hilmisdóttir hefur verið ráðin rannsóknarlektor á orðfræðisviði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Gert er ráð fyrir að hún hefji störf í byrjun árs 2017.

Helga hefur undanfarin ár starfað sem lektor í íslensku og íslenskum bókmenntum við Háskólann í Helsinki og var áður lektor við íslenskudeild Manitóbaháskóla. 

Rannsóknir Helgu hafa einkum verið á sviði orðfræði með áherslu á talmál og samtalsgreiningu. Doktorsritgerð hennar, A Sequential Analysis of nú and núna in Icelandic Conversation, kom út í ritröðinni Nordica Helsingiensia árið 2007.

Helga var forgöngumaður um gerð íslensk-finnskrar orðabókar innan veforðabókarinnar ISLEX og hefur starfað sem verkefnisstjóri íslensk-finnska hlutans frá árinu 2013.

Helga mun hafa starfsstöð að Laugavegi 13, þar sem orðfræðisvið Stofnunar Árna Magnússonar er til húsa.  Samstarfsmenn bjóða Helgu velkomna til starfa og hyggja gott til samstarfsins fram undan.