Skip to main content

Fréttir

Hluti af náminu er að hlusta á íslenskt unglingamál

Eva Hrund Sigurjónsdóttir

Eva Hrund Sigurjónsdóttir er B.A.-nemi á þriðja ári í almennum málvísindum við Háskóla Íslands. Hún starfar samhliða námi við eitt af þeim rannsóknarverkefnum sem unnið er að á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum ásamt samnemendum sínum Evu Ragnarsdóttur Kamban, Atla Snæ Ásmundssyni og Iðunni Kristínardóttur.

Rannsóknin nefnist Íslenskt unglingamál og er stýrt af Helgu Hilmisdóttur rannsóknardósent á orðfræðisviði stofnunarinnar. Helsta verk þeirra er að skrá niður upptökur af samtölum unglinga og búa þannig til gagnagrunn fyrir verkefnið. Samtölin eru ýmist fengin með heimsóknum í bæði grunn- og framhaldsskóla eða eru aðsend frá unglingum sem tekið hafa upp samtöl sín á milli, vina sinna eða fjölskyldu. Öll samtöl eru fengin og notuð með samþykki þátttakenda. Skráningarforritið ELAN er notað við skráningu samtalanna og hljóðvinnsluforritið Audacity er notað til að hreinsa út persónulegar upplýsingar í hljóðupptökunum.

Verkefnið hefur vakið mikinn áhuga hjá nemunum og stefna nokkrir þeirra á að skrifa B.A.-ritgerðir sínar út frá því.