Skip to main content

Fréttir

Hundrað þúsund myndir af síðum handrita

Handritamyndir
SSJ

Fyrir skömmu síðan hlóð ljósmyndari Árnastofnunar, Sigurður Stefán Jónsson, inn á vefinn handrit.is myndum af handriti sem ber safnmarkið SÁM 133. Með því varð heildarfjöldi mynda af handritum stofnunarinnar á vefnum rúmlega 100.000 talsins.

Vefurinn handrit.is er samskrá yfir íslensk og norræn handrit sem eru varðveitt í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Árnasafni í Kaupmannahöfn (Den Arnamagnæanske Samling). Einnig má þar finna nokkur handrit úr einkaeigu og handrit varðveitt á öðrum stofnunum.

Vefurinn veitir aðgang að fjölda handrita frá ólíkum tímaskeiðum. Elstu handritin eru skinnblöð frá 12. öld en þau yngstu eru skrifuð á pappír á 20. öld. Efniviður handritanna er fjölbreyttur. Í þeim má m.a. finna sögur, rímur og kvæði, lögbækur, lækningabækur, stjörnuspeki, sendibréf og margt fleira. Hægt er að vafra á síðunni eftir efnisflokkum. 

Vefurinn hlaut Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands árið 2010 og hefur hlotið styrki frá ENRICH, Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands, Rannsóknarsjóði Sigrúnar Ástrósar Sigurðardóttur og Haralds Sigurðssonar, Vísindasjóði RANNÍS, Þjóðhátíðarsjóði, Nýsköpunarsjóði námsmanna og Innviðasjóði RANNÍS.  

Unnið hefur verið að skráningu handrita frá opnun vefsins og eru skráningarfærslur misítarlegar. Í sumum tilvikum hafa handrit verið ítarskráð, og teljast þá fullskráð, og í öðrum tilvikum eru handrit aðeins grunnskráð. Enn er þó nokkur fjöldi handrita óskráður á vefinn og er unnið að því jafnt og þétt að bæta við fleiri handritum. Í þeim tilfellum sem skráningu er ábótavant er bent á skráningu í prentuðum skrám.

Margir starfsmenn hafa komið að skráningunni, sem og ýmsir stúdentar til skemmri og lengri tíma, en umsjónarmenn síðunnar fyrir hönd Árnastofnunar eru Þórunn Sigurðardóttir, Beeke Stegmann og Haukur Þorgeirsson. Stafrænar myndir af handritum eru birtar við skráningarfærslur eftir því sem tækifæri gefst til og ástand handritanna leyfir. Þessar myndir eru nú, eins og fyrr segir, orðnar rúmlega 100.000 talsins. Tveir ljósmyndarar Árnastofnunar hafa komið að verkinu, Sigurður Stefán Jónsson og forveri hans, Jóhanna Ólafsdóttir.

Hér að neðan er hægt að fletta í handritinu SÁM 133, þökk sé myndskráningu Sigurðar á handrit.is.