Skip to main content

Fréttir

Íslensk-danskur orðabókarsjóður afhentur Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Stjórn Íslensks-dansks orðabókarsjóðs hefur afhent Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gjafabréf að öllum eignum sjóðsins. Í stjórninni sitja Guðrún Kvaran (formaður), Hrefna Arnalds, Jón G. Friðjónsson og Vésteinn Ólason. Sjóðurinn á sér óvenjulega sögu og merkilegan tilgang. Árið 1919 fékk Björg C. Þorláksson, sem vann að orðabókinni með Sigfúsi Blöndal eiginmanni sínum frá árinu 1903, þá frumlegu hugmynd að orðabókin ætti „að eiga sig sjálf“, og væri eins konar „bók sem sjálfseigandi stofnun“. Finna má skemmtilega greinargerð Bjargar um sögu orðabókarinnar og umsóknir til Alþingis vegna hennar í bæklingnum Ísland skapar fordæmi sem gefinn var út 1928.

Sigfús og Björg stofnuðu Íslensk-danskan orðabókarsjóð árið 1924 en samkvæmt stofnskrá er tilgangur hans að ,,sjá fyrir því, að framvegis verði jafnan til stór og vönduð íslensk-dönsk orðabók yfir íslenskt og danskt nútíðarmál“. Fyrir atbeina Bjargar tókst að safna framlögum frá Alþingi og Ríkisþingi Dana til útgáfunnar.

Íslensk-dönsk orðabók Sigfúsar Blöndals kom út á árunum 1920­–1924 en hefur síðan verið ljósprentuð tvisvar og auk þess var gefinn út viðbætir við bókina árið 1963. Hún er enn ein stærsta íslenska orðabókin sem unnið hefur verið að til þessa, telur yfir þúsund blaðsíður.

Allar tekjur af sölu orðabókarinnar hafa runnið í sjóðinn og staðið straum af endurútgáfum. Meira má lesa um Íslensk-danska orðabók Sigfúsar Blöndals á heimasíðu orðabókarinnar blondal.arnastofnun.is.

Árið 2014 var orðabókin ljósmynduð og henni komið fyrir á vefnum bækur.is. Tveimur árum síðar eða árið 2016 ákvað stjórn orðabókarsjóðsins að nýta fjármagn hans til að gefa Orðabók Blöndals ásamt viðbæti út á vef. Stjórn sjóðsins gerði þá samkomulag við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum um að færa orðabókina í stafrænan búning til að tryggja rafrænt aðgengi að henni á vefnum. Skipuð var verkefnisstjórn sem í sitja Halldóra Jónsdóttir, Steinþór Steingrímsson og Þórdís Úlfarsdóttir og annaðist hún hugbúnaðargerð, mannaráðningar og heimasíðu. Til verkefnisins voru ráðnir stúdentar í íslensku og málvísindum við Háskóla Íslands. Íslensk-danskur orðabókarsjóður hefur greitt allan kostnað við þetta umfangsmikla verk, alls um 30 milljónir króna.