Skip to main content

Fréttir

Íslensk máltækni – Stofnun sjálfseignarstofnunarinnar Almannaróms

Mynd fengin af vefnum almannaromur.is.

 

Stofnfundur sjálfseignarstofnunarinnar Almannaróms var haldinn í Háskólanum í Reykjavík fimmtudaginn 5. júní 2014.

Skipulagsskrá Almannaróms var staðfest 14. nóvember 2014 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 28. nóvember 2014.

Almannarómur er stofnaður til að sinna íslenskri máltækni með það að markmiði að tryggja að íslenska standi jafnfætis öðrum tungumálum í tækniheiminum, að vernda íslenska tungu, og að stuðla að aðgengi almennings og atvinnulífs að nauðsynlegri tækni. Stofnaðilar eru 22, ýmis félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir sem öll eiga fulltrúa í fulltrúaráði stofnunarinnar. Fleiri hafa bæst í hópinn og allir geta gerst félagar. Á stofnfundinum var stjórn félagsins kjörin en í henni sitja: Jón Guðnason, Kristinn H. Einarsson, Sigrún Helgadóttir (formaður), Sveinn Tryggvason og Þorgeir Sigurðsson.

Undirbúningur að stofnun Almannaróms hófst árið 2013. Í undirbúningshópi sátu aðilar frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Blindrafélaginu, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Já Upplýsingaveitum, RDL Inc. og Tryggingamiðstöðinni.

Þeir sem hafa staðið að stofnun Almannaróms telja að gerð vandaðs talgreinis eigi að vera fyrsta verkefni stofnunarinnar. Lögð er áhersla á að allar máltæknilausnir sem Almannarómur mun vinna að verði almenningseign (opinn hugbúnaður).

Á fjárlögum 2015 eru 15 milljónir króna ætlaðar til verkefna á sviði máltækni. Stjórn Almannaróms bindur miklar vonir við að þetta sé aðeins upphafið að verulegu átaki til eflingar íslenskri máltækni, og bendir í því sambandi á að vorið 2014 samþykkti Alþingi einróma þingsályktunartillögu um gerð aðgerðaáætlunar um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni. Vonast er til að tillögur nefndar sem samdi þessa aðgerðaáætlun verði til þess að auknu opinberu fé verði veitt til máltækniverkefna.

Stjórn Almannaróms vinnur nú að því að móta stefnu fyrir stofnunina og gera áætlun um frumgerð að íslensku talgreiningarkerfi sem aðrir geta síðan byggt á.

Ef óskað er frekari upplýsinga vinsamlegast hafið samband við:

Sigrúnu Helgadóttur, formann stjórnar Almannaróms, vs: 535 4434, gsm: 864 7575, tp: sigruhel@hi.is