Skip to main content

Fréttir

Íslensk-pólsk orðabók hlýtur styrk

Á degi íslenskrar tungu veitti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum styrk upp á 15 milljónir króna til áframhaldandi vinnu við íslensk-pólska orðabók. Stofnunin hlaut einnig styrk frá ráðuneytinu í fyrra sem gerði henni kleift að ráða þýðendur til verksins. Verkið er nú um það bil hálfnað. 

Brýn þörf hefur verið á veforðabók sem þessari fyrir þann stóra hóp Pólverja sem sest hefur að hér á landi. Markmiðið er að styðja pólska innflytjendur til íslenskunáms og auðvelda þeim þannig að komast betur inn í íslenskt samfélag með því að bjóða upp á gjaldfrjálst, rafrænt og aðgengilegt hjálpartæki sem einnig mun nýtast nemendum í skólum. 

Að þýðingunni vinna Stanislaw Bartoszek, verkefnisstjóri pólska markmálsins hjá Árnastofnun, Aleksandra Maria Cieślińska, Emilia Mlynska og Miroslaw Ólafur Ambroziak sem öll hafa pólsku að móðurmáli og eru menntuð í íslensku við Háskóla Íslands. Þórdís Úlfarsdóttir er aðalritstjóri og Halldóra Jónsdóttir verkefnisstjóri.