Skip to main content

Fréttir

Íslensk-pólsk orðabók kynnt í Póllandi

Íslensk-pólsk orðabók opnuð.
Þórdís Úlfarsdóttir

Þær Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir voru á dögunum á ferð um Pólland og heimsóttu háskóla í Gdansk og Poznan ásamt sendiráði Íslands í Varsjá.

Tilefni ferðarinnar var að kynna nýja Íslensk-pólska veforðabók sem nú er í smíðum hjá stofnuninni og er unnin fyrir fjárveitingu frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.

Við Gdansk-háskóla hittu þær tvo hópa nemenda sem læra nútímaíslensku, bæði byrjendur og lengra komna sem Aleksandra Cieslinska kennir. Einnig ræddu þær við Mariu Sibinska, yfirmann deildar skandinavískra mála og finnsku, sem lýsti yfir áhuga á frekari samskiptum við Árnastofnun.

Í Adam Mickiewicz-háskólanum í Poznan eiga skandinavísk fræði sér langa sögu og á árum áður var þar einnig kennd íslenska. Þar hittu Þórdís og Halldóra stóran hóp nemenda í norsku, sænsku og dönsku ásamt kennurum í norrænum málum og kynntu orðabókina fyrir þeim. Þær ræddu við Dominiku Skrzypek, prófessor í sænsku, og Grzegorz Skommer, prófessor í norsku, sem létu í ljós mikinn áhuga á frekara samstarfi.

Á sumardaginn fyrsta, 25. apríl, var svo haldinn kynningarfundur í sendiráði Íslands í Varsjá fyrir fólk sem vinnur að framgangi íslensku og sinnir háskólakennslu í tungumálinu víða í Póllandi. Sendiherrann, Hannes Heimisson, opnaði veforðabókina sem verk í vinnslu í lok fundarins. Auk Þórdísar og Halldóru voru tveir pólsku ritstjóranna viðstaddir, þau Aleksandra Cieslinska og Stanislaw Bartoszek.

Íslensk-pólsk orðabók byggir á sama grunni og aðrar veforðabækur Árnastofnunar, svo sem hin íslensk-skandinavíska ISLEX og Íslensk-franska veforðabókin LEXÍA. Íslensk-pólska orðabókin verður því sú áttunda í röð tvímálaorðabóka sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gefur út. Starfsmenn pólsku ritstjórnarinnar eru, auk Aleksöndru og Stanislaws, þau Emilia Mlynska, Miroslaw Ambroziak og Pawel Bartoszek.

Vonir standa til að að hinir fjölmörgu Pólverjar sem búsettir eru hérlendis muni geta nýtt sér verkið í námi og starfi.

 

Hér getur að líta nokkrar myndir frá heimsókn Halldóru og Þórdísar í sendiráð Íslands í Varsjá. Ljósmyndari er Emiliana Konopka.

Á hópmyndinni má sjá hluta þátttakenda á tengslafundi í sendiráði Íslands í Varsjá.
Frá vinstri: Fjóla María Jónsdóttir, áður starfsmaður á þjóðfræðisviði Árnastofnunar, Ryder Patzuk-Russel, fræðimaður við Slaski-háskóla í Katowice, Þalía Regn dóttir þeirra, Stanislaw Bartoszek verkefnisstjóri pólsku, Julia Jaworska frá SWPS-háskólanum í Varsjá, Halldóra Jónsdóttir, Þórdís Úlfarsdóttir, Hannes Heimisson sendiherra, Jakub Morawiec, prófessor í norrænni sögu við Slaski-háskóla í Katowice og Maruia Sibinska, prófessor við deild skandinavísku og finnsku í Gdansk.