Skip to main content

Fréttir

Íslenskar ritreglur og pólski hluti ISLEX fá styrki

Styrkur úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur til verkefna sem Árnastofnun vinnur að.

Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur veitti nýverið fjármunum til tveggja verkefna sem unnin eru á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Þórdís Úlfarsdóttir
Jóhannes B. Sigtryggsson

Sjóðurinn hefur veitt Þórdísi Úlfarsdóttur, orðabókarritstjóra hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, styrk að upphæð 3 milljónir króna til vinnu við nýja íslensk-pólska orðabók. Orðabókin er byggð á ISLEX-verkefninu og verður unnin í samstarfi við Stanislaw J. Bartoszek. Á undanförnum áratugum hefur hann samið og gefið út íslensk-pólska og pólsk-íslenska orðabók í nokkrum útgáfum, en mikil þörf er á nýrri og stærri orðabók milli tungumálanna. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur yfir að ráða íslenskum orðabókarstofni og þeirri fagþekkingu sem þarf til verksins en stofnunin er útgefandi margra veforðabóka. Þórdís mun stýra verkefninu. Nýja orðabókin verður mikilvægt hjálpargagn fyrir pólskumælandi íbúa Íslands við íslenskunám þeirra. Orðabókin mun einnig nýtast þeim Íslendingum sem læra eða nota pólsku og verður öllum aðgengileg og ókeypis á vefnum.

Styrktarsjóður hefur einnig veitt Jóhannesi B. Sigtryggssyni, rannsóknarlektor hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum styrk að upphæð 850 þ.kr. til vinnu við nýtt verk sem nefnist Íslenskar ritreglur. Þar verður fjallað ítarlega í fyrsta sinn um opinberar ritreglur Íslenskrar málnefndar (2016, 2018). Það mikilvægasta í reglunum verður sett fram á skýru og einföldu máli og mikil áhersla lögð á notendavæna hönnun bókarinnar. Sérstök rafræn útgáfa hennar verður samhliða gefin út. Auk umfjöllunar um ritreglurnar verður bætt við ýmsu gagnlegu aukaefni sem tengist ritun og frágangi texta. Stefnt er að því að ritið verði aðgengileg handbók um ritreglur og ritun fyrir framhaldsnema, kennara og alla sem fást við skriftir.