Skip to main content

Fréttir

Konan kemur við sögu er komin út

Ritið Konan kemur við sögu er safn 52 pistla sem allir fjalla um konur í menningarsögunni.

Útgáfan er við alþýðuskap og var sérstaklega vandað til hönnunar prentgripsins, en Snæfríð Þorsteins hafði veg og vanda af útliti og áferð bókarinnar.

Texti bókarinnar kemur frá 37 pistlahöfundum en pistlarnir eru 52, jafnmargir vikunum í árinu og var hugmyndin sú að lesendur gætu skemmt sér við að skammta sér einu fróðleikskorni til lestrar í hverri viku ársins. Ritstjórn var í höndum Svanhildar Maríu Gunnarsdóttur og Þórðar Inga Guðjónssonar, en Eva María Jónsdóttir aðstoðaði við útgáfuna.

Umfjöllunarefni bókarinnar eru margvísleg, allt frá tengslum nafngifta og eldsumbrota, að kvæðakonum og frá gleðikonum til spássíukrots frá miðöldum.

Með því að safna saman pistlunum vildi Árnastofnun leggja sitt af mörkum til að fagna því að árið 2015 voru 100 ár liðin frá því að konur á Íslandi fengu kosningarétt. Margir pistlanna hafa áður birst á vef stofnunarinnar.

Bókin er til sölu hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum á sérstöku kynningartilboði á 3.600 krónur. Hana má einnig kaupa í öllum helstu bókaverslunum frá 1. desember.

 

 

Í káputexta segir um bókina:

Í bókinni Konan kemur við sögu eru birtir 52 fróðlegir og alþýðlegir pistlar sem allir fjalla á einn eða annan hátt um konur og kvennamenningu í aldanna rás.

Í pistlunum má til að mynda lesa um kvæða- og sagnakonur, skáldkonur og konur í bókmenntum og þjóðlífi fyrr og síðar, örnefni, nýyrði, tökuorð, íðorð, kenningar í skáldskap, orðabókagerð og handrit í eigu kvenna eða handrit skrifuð af konum – og er þá ekki allt upp talið.

Höfundarnir eru núverandi og fyrrverandi starfsmenn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum auk gestafræðimanna og góðvina stofnunarinnar. Með pistlaröðinni vildi Árnastofnun leggja sitt af mörkum í tilefni aldarafmælis kosningaréttar kvenna á Íslandi árið 2015.

Fjöldi mynda prýðir bókina en nokkrar þeirra hafa ekki áður birst á prenti svo að vitað sé.

Hér má finna lista yfir pistlahöfunda sem eiga efni í bókinni.

Hér má finna efnisyfirlit bókarinnar.