Skip to main content

Fréttir

LexicoNordica í 30 ár

""

Í árslok 2023 kom út 30. árgangur LexicoNordica, tímarits norræna orðabókafræðifélagsins NFL. Frá upphafi hefur verið fjallað um tiltekið þema í hverju hefti og í þetta sinn er það „Þýðingar og orðabókafræði á Norðurlöndum“ (Översättning och leksikografi i Norden). Viðfangsefnið er skoðað frá ólíkum hliðum í tíu greinum eftir þýðendur og orðabókafræðinga frá Danmörku, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Í inngangi gera aðalritstjórar tímaritsins, Anna Helga Hannesdóttir og Henrik Hovmark, grein fyrir þemanu og forsendum þess að það varð fyrir valinu og því hvernig einstakir höfundar völdu að nálgast það í greinum sínum, sem fjalla m.a. um það frá sjónarhorni bókmenntaþýðinga (Annette Lassen í tengslum við nýjar þýðingar fornsagna á dönsku og Hedda Vormeland um þýðingar fagurbókmennta úr hollensku á norsku), þýðinga á sértækum nytjatextum og tengslum við íðorðafræði (Valgerður Halldórsdóttir um ESB-þýðingar á íslensku og Ole Våge um þýðingar á læknisfræðilegum íðorðagögnum) og gerð rafrænna orðabókagagna fyrir minnihlutamál á Norðurlöndum (Marie Mattson og Magnus Ahltorp um gerð máltóla fyrir minnihlutamál í Svíþjóð og Trond Trosterud o.fl. um gerð orðabóka milli samískra mála í Noregi með stuðningi máltæknilegra aðferða). Umsagnir um nýútgefnar orðabækur hafa löngum verið gildur hluti af efni tímaritsins en í þetta sinn er einungis birtur einn ritdómur þar sem Baldur Sigurðsson fjallar um tékknesk-íslenska orðabók Helga Haraldssonar (útg. 2020). Bókin fær lofsamlega umsögn og ritdómurinn sætir einnig tíðindum að því leyti að þetta er í fyrsta sinn sem texti er birtur á íslensku í LexicoNordica (með ítarlegum útdrætti á sænsku) í 30 ára sögu þess.

Íslenskt orðabókafólk hefur tekið virkan þátt í starfi NFL frá upphafi, margir íslenskir höfundar hafa birt greinar í LexicoNordica og Ísland hefur átt fulltrúa í ritstjórn tímaritsins. Ásta Svavarsdóttir hefur verið landsritstjóri fyrir Ísland sl. áratug en frá og með næsta hefti mun Helga Hilmisdóttir taka við keflinu.

LexicoNordica er gefið út árlega og félagar í NFL eru um leið áskrifendur að því. Tímaritið er aðgengilegt frá upphafi á vefnum og þar eru ný hefti nú birt jafnharðan.