Skip to main content

Fréttir

Myndarlegur styrkur úr sjóði Áslaugar Hafliðadóttur til að þróa nýtt textagreiningartæki tengt Íslensku orðaneti

 

Þegar úthlutað var úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur í liðinni viku fengu Jón Hilmar Jónsson og Bjarki Karlsson styrk til frekari þróunar á Íslensku orðaneti sem hjálpartæki við textagerð.

 

Jón Hilmar segir að hugmyndin hafi kviknað þegar vinna við Orðanetið stóð yfir á síðasta ári:  „Þá varð okkur Bjarka ljóst að textahöfundum kemur vel að geta skimað eftir valkostum í orðalagi um leið og þeir semja textann, metið það sem bent er á og eftir atvikum breytt á skjótvirkan hátt. Gagnvart Orðanetinu liggur beinast við að virkja orðasamböndin í þessu sambandi. Í framhaldinu má svo gera stökum orðum sambærileg skil.  Við sóttum því um styrk til að þróa greiningartæki í þessu skyni sem við höfum valið heitið Ritskyggnir. Vinnan við verkefnið hefst í haust og við vonum að árangurinn komi í ljós á næsta ári."

 

Ritskyggnir – fleiryrtar orðabókareiningar í textasamhengi miðar að því að búa málnotendum í hendur verkfæri til að ná fram skýrari og blæbrigðaríkari málnotkun við textaritun. Ritskyggnir hefur það hlutverk að greina orðanotkun í samfelldum texta og benda á valkosti í orðalagi, sérstaklega þegar um er að ræða merkingarbær orðasambönd. Ef textahöfundur vill breyta orðalagi getur hann virkjað viðkomandi valkost á einfaldan hátt. Gögn úr Íslensku orðaneti eru lögð til grundvallar en viðbótargögn eru sótt í stafræn textasöfn, einkum Tímarit.is, með hálfsjálfvirkum innlestri sem síðan er yfirfarinn og samræmdur. Markmiðið er jafnframt að gera merkingarbær orðasambönd almennt greinanleg í textasamhengi og greiða með því fyrir athugunum á stöðu þeirra og einkennum. Því er verkefninu einnig ætlað að nýtast við margs konar greiningu á íslenskum mál- og orðabókargögnum.

 

Jón Hilmar Jónsson, höfundur Íslensks orðanets, og Bjarki Karlsson, samverkamaður hans, að opnun og kynningu afstaðinni.