Skip to main content

Fréttir

Ný ásýnd Árnastofnunar

Árið 2006 varð Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum til þegar fimm háskólastofnanir á sviði íslenskra fræða voru sameinaðar í eina. Þetta voru Íslensk málstöð, Orðabók Háskólans, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Stofnun Sigurðar Nordals og Örnefnastofnun (nánar má lesa um þessar stofnanir á síðunni Saga Árnastofnunar). Starfsemi Árnastofnunar hefur þó aldrei verið undir einu þaki og hefur farið fram á þremur stöðum. 

Nú eru gjörbreyttir tímar. Árnastofnun er að mestu flutt í nýtt hús sem hefur fengið nafnið Edda. Byggingin er aðeins steinsnar frá Árnagarði þar sem aðalskrifstofa Árnastofnunar var til húsa en Edda mun rúma alla starfsemi stofnunarinnar. Innan tíðar verður handritasafn Árnastofnunar flutt í handritageymsluna í Eddu og ný handritasýning opnuð. Þá má segja að sameiningunni sem hófst árið 2006 verði loks lokið. 

Á tímum stórra breytinga felast gjarnan tækifæri og ákveðið var að nota þessa umbyltingu á högum stofnunarinnar til að leggjast í allsherjarendurskoðun á því hönnunarútliti sem hefur einkennt hana hingað til. Miðlunarsvið Árnastofnunar vann í góðu samstarfi við auglýsingastofuna Brandenburg að umbreytingu að því en töluverðar breytingar voru gerðar á einkennislitum og merki stofnunarinnar. 

Litur 

Aðallitur Árnastofnunar var áður dumbrauður en verður hér eftir dökkgrænn. Liturinn mun hafa stórt vægi í birtingarmynd stofnunarinnar og verður sá litur sem fólk mun tengja við Árnastofnun. Aukalitir verða notaðir til að brjóta upp, auka fjölbreytni og fegra útlit efnis. Áherslulitir eru notaðir sparlega, einkum til áhersluauka.  

Litapaletta Árnastofnunar

Merki 

Merki Árnastofnunar hefur einnig tekið breytingum en eldra merki stofnunarinnar var teiknað upp eftir innsigli Árna Magnússonar. Ákveðið var að taka upp nýtt merki sem endurspeglar betur fjölbreytta starfsemi Árnastofnunar. Eldra merkið verður þó áfram notað í viðhafnartilgangi en það mun fylgja handritasafni Árnastofnunar og bókaútgáfu. Þrátt fyrir þessi umskipti mun nýtt aðalmerki hafa sterka skírskotun í uppruna stofnunarinnar en merkið er einfölduð útgáfa af hluta hins upphaflega merkis. Með nýju aðalmerki verður notast við stytta útgáfu af nafni stofnunarinnar en fullt heiti hennar er Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Nýtt merki Árnastofnunar

Nýr hönnunarstaðall hefur nú formlega verið tekinn í notkun eins og sjá má á umfangsmiklum breytingum á útliti heimasíðu stofnunarinnar. Fyrir samstarfsaðila og aðra sem þurfa að nálgast nýtt merki og upplýsingar um litakóða er hægt að sjá þær á síðunni Hönnunarstaðall.