Skip to main content

Fréttir

Nýr starfsmaður á alþjóðasviði

Branislav Bédi hefur verið ráðinn verkefnisstjóri á alþjóðasviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Branislav lauk BA-prófi í íslensku fyrir erlenda stúdenta frá Háskóla Íslands árið 2009 og fékk námsstyrk sem mennta- og menningarmálaráðuneytið veitir erlendum nemendum ár hvert. Hann lauk MA-prófi í tveimur aðalgreinum frá Konstantínháskólanum í Nitra í Slóvakíu 2011 og MA-prófi í þýsku frá hugvísindadeild HÍ 2015 og ver doktorsritgerð sína á næstunni. Ritgerðin ber heitið: Úr raunveruleikanum í sýndarheiminn: notkun náttúrulegs tungumáls í hönnun líkans fyrir raunsæja víxlverkun á milli sýndarvera og mannlegra notenda í kennslu íslensku sem annars máls.

Branislav hefur mikla þekkingu á tungumálum og reynslu af kennslu erlendra tungumála bæði hér á Íslandi sem og í Slóvakíu og víðar. Hann hefur sent frá sér ýmsar greinar, haldið erindi og verið ötull í alþjóðlegu samstarfi.

Branislav er boðinn velkominn til starfa.