Skip to main content

Fréttir

Opnun Íslensk-danskrar orðabókar Sigfúsar Blöndals

Íslensk-dönsk orðabók Sigfúsar Blöndals er nú aðgengileg á vefnum. Orðabókin er yfir þúsund blaðsíður sem hafa allar verið ljóslesnar, yfirfarnar og textinn gerður leitarbær. Útgefandi rafrænu gerðarinnar er Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum en Íslensk-danskur orðabókarsjóður kostaði verkið.

Guðrún Kvaran og Guðrún Nordal

Gert var samkomulag milli Orðabókarsjóðsins og Árnastofnunar um útgáfuna og hófst verkið árið 2016 þegar skipuð var verkefnisstjórn. Landsbókasafn Íslands sá um að ljósmynda alla orðabókina, en Árnastofnun annaðist tæknilega vinnslu við ljóslestur textans. Stúdentar við Háskóla Íslands voru ráðnir til starfa við að yfirfara og lagfæra ljóslesna textann, sem var afar umfangsmikið verk. Texti viðbætisins var unninn á sama hátt og er nú hægt að leita bæði í meginmáli orðabókarinnar og í viðbætinum.

Verkefnisstjórn skipa Halldóra Jónsdóttir (formaður), Steinþór Steingrímsson og Þórdís Úlfarsdóttir og hafa þau haft umsjón með stafrænu útgáfunni. Stúdentar sem unnu við verkið eru Kristján F. Sigurðsson (2016–2017), Oddur Snorrason (2017–2019), Árni Davíð Magnússon (2018–2021), Salome Lilja Sigurðardóttir (2018–2020), Bolli Magnússon (2019), Ása Bergný Tómasdóttir (2019–2020) og Finnur Á. Ingimundarson (2019–2021).

Steinþór, Þórdís, Halldóra og Trausti.

Steinþór Steingrímsson sá um tæknilega vinnu við ljóslestur og gagnavinnslu. Trausti Dagsson bjó til heimasíðu fyrir verkefnið og hannaði viðmót fyrir uppflettingar. Þórdís Úlfarsdóttir sá um texta heimasíðunnar.

Verkefnið er fjármagnað af Íslensk-dönskum orðabókarsjóði. Sjóðsstjórnina skipa Guðrún Kvaran (formaður), Hrefna Arnalds, Jón G. Friðjónsson og Vésteinn Ólason.

Hér má sjá myndband frá opnuninni.

Hér má sjá orðabókina.