Skip to main content

Fréttir

Rannsóknir á enskum áhrifum á óformleg samtöl

Rannsóknarhópurinn PLIS hlaut á dögunum tveggja ára styrk frá Nordplus språk til að rannsaka ensk áhrif á óformleg samtöl á Norðurlöndum. Samstarf fræðimannanna hófst haustið 2020 þegar Helga Hilmisdóttir hlaut styrk frá Nordforsk til að skipuleggja norræna málstofuröð um sama efni (sjá vefsíðu pragmaticborrowing.info). Hugmyndin með verkefninu var að beina kastljósi að þeim mikla fjölda upphrópana, blótsyrða, ávarpa og kurteisisfrasa sem komið hafa inn í norræn mál og finnsku á undanförnum árum, þ.e. orð og orðasambönd á borð við jess, what, fokk, plís og ómægod. Að þessu sinni er ætlunin að safna upptökum af vinsælum hlaðvörpum á Norðurlöndum og bera saman notkun þessara orða með skipulögðum hætti. Meðal annars munu rannsakendur velta fyrir sér hvað sé sameiginlegt tungumálum á Norðurlöndum og hvað ekki. Verkefnið mun varpa ljósi á hvernig enska hefur áhrif á lítil málsamfélög á borð við þau sem finna má á Norðurlöndum. Um verkefnið má lesa nánar á ensku.