Skip to main content

Fréttir

Rímur og rapp á Barnamenningarhátíð

Rósa Þorsteinsdóttir, þjóðfræðingur við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, tók þátt í skapandi verkefni með Reykjavíkurborg sem nefnist Rímur og rapp. Sköpunin gat af sér afurð, lagið Ostapopp, sem var frumflutt í Hörpu við opnun Barnamenningarhátíðar 2018 þriðjudaginn 17. apríl.

Eins og í öllu skapandi starfi tók verkefnið ýmsar sveigjur í sköpunarferlinu. Rósa segir svo frá:

„Í upphafi vildu stjórnendur Barnamenningarhátíðar tengja rapp nútímans við rímur fortíðarinnar og við pældum heilmikið í hvernig best væri að nálgast verkefnið. Verkefnið tengist 100 ára fullveldisafmælinu og við leiddum hugann að því hvort eitthvað væri séríslenskt á þessu sviði. En líkt og rappið kemur að utan voru þau kvæðalög sem sungin voru á íslensku fyrr á tímum ekki endilega séríslensk heldur finnast í löndum í kringum okkur.

Steiney Skúladóttir, Pálmi Freyr Hauksson umvafin nemendum í 4. bekk.

Þegar hugað er að yrkisefnum fyrr og nú kemur í ljós að það sem fólk var að yrkja um árið 1918 tengdist margt þeim erfiðleikum sem herjuðu á landið á þeim tíma: spænsku veikinni, Kötlugosi, heimsstyrjöldin fyrri og svo frostavetrinum mikla sem var innblástur fyrir ófáar vísur á borð við þessa:

Kuldinn beygja fyrða fer.
Fást þess eigi bætur.
Ef við deyjum allir hér
einhver meyjan grætur.

Nú tjá rapparar af báðum kynjum sig um lífsbaráttuna og sitt sýnist hverjum. Þessum fróðleiksmolum og fleirum var svo safnað saman í skemmtilegan fyrirlestur sem allir nemendur í 4. bekk í grunnskólum borgarinnar ættu að hafa heyrt núna. Tvíeykið Steiney Skúladóttir og Pálmi Freyr Hauksson fóru með þetta skemmtilega fræðsluerindi til fundar við um 3000 börn. Nemendurnir voru hvattir til að yrkja um það sem þeim liggur á hjarta líkt og Íslendingar hafa gert sér til gamans og hugarhægðar allt frá landnámi.

Börnin voru líka frædd um að það skiptir máli að vita hvað gerðist í fortíðinni. Skemmtilegt dæmi var notað til þess þar sem hið vinsæla rapplag BOBA byggist á og vísar til raunverulegs  atviks í íþróttalýsingu fyrir 20 árum sem síðan hefur verið endurskapað á ýmsan hátt, notað í auglýsingum og nú síðast tónlist þeirra rappara Króla og Jóa P.“

Hér má sjá og heyra lagið Ostapopp sem er afraksturinn af samvinnu barna í 4. bekk í grunnskólum borgarinnar, Steinunnar Jónsdóttur og Steineyjar Skúladóttur. Tónlistina samdi Fjallið.