Skip to main content

Fréttir

Ritdómur um Góssið hans Árna

Bókin Góssið hans Árna fékk jákvæða umfjöllun í nýju hefti hins gamla og virta fræðitímarits Arkiv för nordisk filologi sem gefið er út í Svíþjóð. Ritdómurinn er eftir Karl G. Johansson, prófessor í norrænum fræðum í Ósló. Johansson leggur út af inngangi bókarinnar, sem fjallar um tilgang skrár UNESCO, Minni heimsins, og undirstrikar m.a. forgengileika handritanna. Hann bendir á hversu viðkvæm þau eru fyrir ýmsum hættum sem steðja að þeim, og minnir á að ævafornar minjar í Sýrlandi og Írak sem voru á skrá UNESCO hafi nýlega verið eyðilagðar, en hann telur ekki síður að gleymska og afrækt sé mikil ógn. Að lokum fagnar hann útgáfu bókarinnar, sem hann segir að sýni hversu alvarlega fræðimenn á Árnastofnun og í Háskóla Íslands taki þá ábyrgð sem skráning handritanna hjá UNESCO felur í sér.

Bókin er nú á sérstöku tilboðsverði, 4500 krónur, í tilefni af því að í ár eru liðin 45 ár frá heimkomu handritanna. Tilboðið gildir á Bókasölu Stofnunar Árna Magnússonar, 2. og 3. febrúar í Árnagarði við Suðurgötu frá kl. 11-14.