Skip to main content

Fréttir

Rúnir á Íslandi tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis

Hvít bók sem heitir "Rúnir á Íslandi" flýtur á hvítum grunni, skuggi undir henni. Á kápunni er mynd af silfruðu kefli og upp úr því sveigist pappírsrenningur.
SSJ

Bók Þórgunnar Snædal Rúnir á Íslandi er á meðal tíu fræðibóka sem tilnefndar eru til Viðurkenningar Hagþenkis 2023.

Viðurkenningin verður veitt við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í mars og felst í sérstöku viðurkenningarskjali og verðlaunafé að upphæð 1.250.000 króna.  

Viðurkenningarráð Hagþenkis er skipað fimm félagsmönnum til tveggja ára í senn og í því eru fyrir útgáfuárið 2023: Ársæll Már Arnarson, Halldóra Jónsdóttir, Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, Sigurður Sveinn Snorrason og Unnur Þóra Jökulsdóttir. Friðbjörg Ingimarsdóttir framkvæmdastýra Hagþenkis sér um verkstjórn ráðsins.

Laugardaginn 24. febrúar kl. 13−15 munu tilnefndir höfundar kynna rit sín á Reykjavíkurtorgi í Borgarbókasafni Reykjavíkur í Grófinni.

Um bókina Rúnir á Íslandi:

Hver er letrið les,
bið fyrir blíðri sál,
syngi signað vers.

Með þessum orðum lýkur rúnaáletrun á legsteini Sigríðar Hrafnsdóttur á Grenjaðarstað um miðja 15. öld. Með fornleifauppgötvunum síðustu ára hefur komið æ betur í ljós að rúnir voru notaðar á Íslandi frá upphafi byggðar til þess að rista nöfn og setningar í gripi af ýmsu tagi. Þótt Íslendingar lærðu að rita bækur með latínuletri hélt rúnaletrið lengi vel þeim sessi að vera það letur sem notað var í áletranir.

Dr. Þórgunnur Snædal starfaði í 37 ár sem rúnafræðingur við Riksantikvarieämbetet í Stokkhólmi. Í þessu aðgengilega yfirlitsriti birtir hún afrakstur rannsókna sinna á íslenskri rúnasögu frá landnámi til nútímans.

Ritstjóri bókarinnar er Haukur Þorgeirsson.

Fyrsta prentun er uppseld. Von er á 2. prentun bókarinnar.