Skip to main content

Fréttir

Samningur um sýningu undirritaður í Listasafni Íslands

Guðrún Nordal greinir frá hlut Árnastofnunar í sýningu sem opnar um miðjan júlí 2018 í tilefni 100 ára afmælis fullveldis Íslands.

Um mitt næsta ár verður opnuð stór sýning í Listasafni Íslands þar sem sýnd verða listaverk, handverk og heimildir sem tengjast fullveldi Íslands.

Það var ekki tilviljun sem réði því að 1. desember 2017 var samningur á milli Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og nefndar Alþingis um hátíðarhöld í tilefni 100 ára fullveldisafmælis um sýninguna undirritaður að viðstöddum samstarfsaðilum og fjölmiðlafólki í Listasafni Íslands.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir framkvæmdastjóri hátíðahaldanna og Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar skrifuðu undir samninginn með fjöðurstaf, heimalöguðu jurtableki og á örk af kálfsskinni til að vísa í forna arfinn. Yfir þeim hékk svo listaverk Birgis Andréssonar, íslenskir fánar prjónaðir í sauðalitunum. Umgjörð samningsins vísar því bæði aftur í tímann og til vorra daga, en þannig mun sýningin endurspegla marga fleti íslenskrar menningar.

Sýningin mun opna um miðjan júlí 2018 í Listasafni Íslands og standa fram yfir 1. desember 2018. Hún mun hafa víða skírskotun og birta gögn sem áður hafa ekki sést opinberlega.