Skip to main content

Fréttir

Samráðsfundur Landmælinga Íslands og Árnastofnunar

Þéttleiki skráninga í örnefnagrunninum. Hér sést hvar mikið hefur verið skráð og hvar gera þyrfti átak í skráningu.
Landmælingar Íslands

Hinn 9. apríl sl. fór fram árlegur samráðsfundur Landmælinga Íslands og Árnastofnunar sem að þessu sinni var haldinn í Eddu. Fundinn sátu fyrir hönd Landmælinga Íslands Gunnar Haukur Kristinsson forstjóri, Bjarney Guðbjörnsdóttir, Lilja Laufey Davíðsdóttir og Steinunn Elva Gunnarsdóttir. Fulltrúar Árnastofnunar á fundinum voru Guðrún Nordal forstöðumaður, Aðalsteinn Hákonarson, Emily Lethbridge og Guðvarður Már Gunnlaugsson. Á fundinum var farið yfir stöðu samstarfsverkefnis stofnananna.

Landmælingar Íslands halda úti gagnagrunni um örnefni í samráði við Árnastofnun. Stofnanirnar gerðu með sér samstarfssamning árið 2007 í samræmi við ákvæði laga um landmælingar og grunnkortagerð frá 2006 og laga um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum frá sama ári. Markmið samstarfsins er að vinna sameiginlega að því að til verði einhlítur gagnagrunnur um íslensk örnefni sem nýtist öllu samfélaginu og að örnefni séu birt með sem réttustum hætti. Lögð er sérstök áhersla á að samræmis sé gætt í því hvernig örnefni eru skráð og hvernig gögnum og upplýsingum um þau er miðlað til samfélagsins.

Landmælingar Íslands sjá um skráningu, viðhald og miðlun gagnagrunnsins en hlutverk Árnastofnunar er að veita faglegan stuðning, s.s. að svara spurningum um örnefni sem upp koma við vinnslu gagnagrunnsins eða vegna ábendinga frá notendum.

Í örnefnagrunninn hafa nú verið skráð og hnitsett um 183.000 örnefni og bætast að jafnaði við hann um 10–15.000 örnefni á ári. Þetta er drjúgur hluti þeirra örnefna sem skráð eru í örnefnasafni Árnastofnunar, en áætlað er að þau gætu verið um 500.000. Ljóst er því að mikið verk er enn þá fyrir höndum. Skráning í örnefnagrunninn fer fram í samvinnu Landmælinga Íslands við heimildarmenn vítt og breitt um landið, enda fást upplýsingar um nákvæma staðsetningu flestra óskráðra örnefna ekki nema frá fólki sem þekkir örnefnin.