Skip to main content

Fréttir

Skönnun vatnsmerkja í pappír

Þessa dagana er unnið að verkefni sem felst í því að skanna vatnsmerki sem finnast í pappír frá 17. öld og notaður var á Íslandi. Verkefnið sem kallast „Hringrás pappírs“ er unnið í samstarfi við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Fraunhofer Institute for Factory Operation and Automation í Magdeburg í Þýskalandi kemur einnig að verkefninu sem verktaki. Markmiðið er að greina hvaðan pappírinn kom til landsins og skilja betur hvernig hann var notaður, t.a.m. hversu gamall hann var þegar á hann var skrifað. Verkefnið stendur yfir í tvær vikur og verða allt að 150 vatnsmerki skönnuð á hverjum degi.

Á myndunum má sjá Silviu Hufnagel sem starfar við verkefnið, Andreas Herzog frá Fraunhofer IFF-stofnuninni í Magdeburg og Vasarė Rastonis forvörð Árnastofnunar. Sjá má hvernig þau búa handrit undir ljósmyndun með sérstakri litrófsmyndavél (e. hyperspectral camera).