Skip to main content

Fréttir

Skuggsjár: myndrænt yfirlit yfir handrit og þjóðfræðiefni

Árnastofnun hefur opnað vef með nýjum stafrænum verkfærum sem nýtast rannsakendum í handritafræðum og þjóðfræði: Handritaskuggsjá og Þjóðfræðiskuggsjá.

Um er að ræða hugbúnað sem kallast Kibana og veitir myndrænt yfirlit yfir gögn. Inn í kerfið hafa verið keyrð gögn um handrit af handrit.is ásamt gögnum um sagnir úr Sagnagrunni og hljóðritum úr þjóðfræðisafni stofnunarinnar sem aðgengilegt er í gegnum ísmús.is.

Í Handritaskuggsjánni er hægt að leita eftir lýsigögnum handrita, svo sem höfundum efnis, skrifurum, efnisorðum og tímasetningum, ásamt því að hægt er að leita eftir textum í lýsingum handrita.

Myndrit í kerfinu sýna ýmsar upplýsingar sem tengjast leitarniðurstöðunum og geta þannig hjálpað til við að finna efni og leiða rannsakendur áfram í leitinni.

Þjóðfræðiskuggsjáin gefur að sama skapi yfirsýn yfir efnisorð, safnara, heimildarfólk og heimildir þjóðfræðiefnis.

Skuggsjárnar má finna á skuggsja.arnastofnun.is og þar má einnig finna leiðbeiningar um notkun kerfisins.

Skjáskot af vefnum https://skuggsja.arnastofnun.is/