Skip to main content

Fréttir

Snorrastyrkþegar 2020

Í tilefni af 750. ártíð Snorra Sturlusonar, 23. september 1991, ákvað ríkisstjórn Íslands að efna til styrkja sem kenndir yrðu við nafn hans. Samkvæmt reglum um styrkina, sem gefnar voru út 1992, skulu þeir árlega boðnir erlendum rithöfundum, þýðendum og fræðimönnum til að dveljast á Íslandi í því skyni að kynnast sem best íslenskri tungu, menningu og mannlífi. Styrkirnir skulu veittir í þrjá mánuði hið minnsta og miðast við greiðslu á ferðakostnaði styrkþega og dvalarkostnaði innanlands.

Styrkir Snorra Sturlusonar fyrir árið 2020 voru auglýstir í júlí sl. með umsóknarfresti til 1. nóvember. Tuttugu og fimm umsóknir bárust frá fimmtán löndum.

Í úthlutunarnefnd styrkjanna eiga sæti Branislav Bédi, verkefnisstjóri og formaður nefndarinnar, Pétur Gunnarsson rithöfundur og Sif Ríkharðsdóttir prófessor. Nefndin hefur nú lokið úthlutun.

Þeir sem hljóta styrki árið 2020, til þriggja mánaða dvalar hver, eru:

François-Xavier Dillmann er með doktorsgráðu í fornnorrænum fræðum frá Caen-háskóla og er prófessor emeritus í fornnorrænum fræðum við École pratique des Hautes Études í Sorbonne (París). Hann stefnir á að hefja þýðingu á þriðja bindi Heimskringlu á frönsku og einnig að undirbúa greinasafn um Ólafs sögu Haraldssonar ins helga sem verður hans næsta verkefni.

 

 

 

 

 

 

 

 

Inés García López er doktor og fræðimaður í germönsku máli og bókmenntum við Rovira i Virgili-háskóla á Spáni. Doktorsritgerð Inésar fjallaði um viðtökur á íslenskum miðaldaskáldskap en sérgrein hennar er viðtökufræði. Hún stefnir á að þýða Kormákssögu á katalónsku en þýðingin verður sú fyrsta sinnar tegundar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nelly Shulman er rithöfundur sem býr í St. Pétursborg. Hún hefur skrifað fjórar metsölubækur á rússnesku um sagnfræðileg efni og vinnur nú að sinni fimmtu bók sem verður á ensku og fjallar um umsátrið um Leningrad. Nelly hlaut styrk frá finnska rithöfundasambandinu og verðlaun kennd við Andrey Platonov fyrir ritgerð sem hún sendi frá sér. Hún mun stunda rannsóknir á sögu Íslands á 11. öld og tengingar Íslendinga við Kænugarð í Rússlandi.