Skip to main content

Fréttir

Styrkir Snorra Sturlusonar 2024

Styrkir Snorra Sturlusonar fyrir árið 2024 voru auglýstir í september síðastliðnum með umsóknarfresti til 1. desember. Tuttugu og tvær umsóknir frá fimmtán löndum bárust áður en umsóknarfrestur rann út. Í úthlutunarnefnd styrkjanna eiga sæti Branislav Bédi formaður nefndarinnar, Gunnþórunn Guðmundsdóttir prófessor og Sindri Freysson rithöfundur. Nefndin hefur nú lokið störfum.

Þau sem hlutu styrk að þessu sinni eru:

Dr. Jenna Sciuto sem er enskukennari við Massachusetts College of Liberal Arts. Hún mun vinna að rannsóknum á verkum Svövu Jakobsdóttur rithöfundar í ljósi sögulegra atburða og tenginga yfir Atlantshafið. Verkefnið miðar að því að rannsaka víðtækar heimildir og áhrif Svövu allt frá samskiptum kynjanna og hersetu Bandaríkjahers til miðaldatexta, svo sem Hávamála í Konungsbók eddukvæða og Snorra-Eddu.

Dr. Mariano González Campo sem mun hefjast handa við rannsókn, útgáfu og fyrstu þýðingu á spænsku á Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar sem stendur til að gefa út hjá Háskólaútgáfu Santiago de Compostela.

Nánar um styrkina: Í tilefni af 750. ártíð Snorra Sturlusonar, 23. september 1991, ákvað ríkisstjórn Íslands að efna til styrkja sem kenndir yrðu við nafn hans. Samkvæmt reglum um styrkina, sem gefnar voru út 1992, skulu þeir árlega boðnir erlendum rithöfundum, þýðendum og fræðimönnum til að dveljast á Íslandi í því skyni að kynnast sem best íslenskri tungu, menningu og mannlífi. Styrkirnir skulu veittir í þrjá mánuði hið minnsta og miðast við greiðslu á ferðakostnaði styrkþega og dvalarkostnaði innanlands.