Skip to main content

Fréttir

Styrkur til að rannsaka what, sorry og fleiri orð í norrænum málum og finnsku

Etienne Girardet

Nýverið hlaut verkefnið Málnotkunarlegar tökur í norrænum málum og finnsku: samanburður á samskiptamunstri (Pragmatic borrowing in the Nordic languages and Finnish: a cross-linguistic study of interaction) norrænan styrk til að halda þrjár málstofur sem skipulagðar verða af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Helga Hilmisdóttir, rannsóknardósent á orðfræðisviði, fer fyrir hópi fimmtán málfræðinga sem rannsaka upphrópanir, orðræðuagnir og aðrar málnotkunarlegar tökur í norrænum málum og finnsku. Tilgangurinn er að skoða notkun orða á borð við what, yes, please og sorry í samtölum ungs fólks og bera notkunina saman á milli mála. Meðal annars verður sjónum beint að framburði orðanna og virkni þeirra í samtalinu. Einnig er stefnt að því að bera saman virkni orða á borð við sorry og innlendra orða sem hafa svipaða merkingu en þó ekki þá sömu. Dómnefndin taldi rannsóknina einkar áhugaverða sakir þess að hún nær til bæði skyldra og óskyldra mála sem að hluta til tilheyra sama málsamfélagi (t.d. sænsku og finnsku í Finnlandi og Svíþjóð).

Fyrsta málstofan verður haldin í nóvember 2021. Í maí 2022 verður svo haldið áfram í Gautaborg en þriðja og síðasta málstofan verður haldin í Helsinki sama haust. Á málþingunum verða einnig gestafyrirlesarar af öðrum sviðum, m.a. fyrirlesarar sem vinna að máltækni, sinna málræktarstarfi og stefnumótun tungumála eða starfa við kennslu ungs fólks. Málþingin verða að hluta til opin öllum sem áhuga hafa á þróun tungumála á Norðurlöndunum.

Heimasíðu verkefnisins má finna hér.