Skip to main content

Fréttir

Styrkveitingar úr RÍM-verkefninu

Beeke Stegmann, rannsóknarlektor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, var einn styrkhafa sem hlutu styrk úr RÍM-verkefninu til að rannsaka bókagerð í Helgafellsklaustri á fjórtándu öld. 

Mynd: Guðrún Nordal
Beeke Stegmann og Lilja Alfreðsdóttir

Bókagerð í Helgafellsklaustri blómstraði á 14. öld. Þverfaglegur rannsóknarhópur vinnur að því að bæta þekkingu okkar á handritagerð klaustursins frá mismunandi sjónarhornum. Handritin sem tengjast Helgafelli verða nú í fyrsta sinn rannsökuð kerfisbundið og samkvæmt nýjustu aðferðafræði í kódikólógíu. Enn er leitað svara við spurningum eins og: Hver voru helstu einkenni bókagerðar í Helgafellsklaustri? Er hægt að tala um sérstakan „Helgafellsskóla“ í bókagerð? Hvernig var samvinnu skrifara og lýsenda háttað? Hverjir aðrir komu að bókagerðinni?

Rannsóknin er þriggja ára verkefni en Beeke hlaut 2,7 milljónir króna til starfsins í eitt ár.

Verkefnið Ritmenning íslenskra miðalda (RÍM) var stofnað í Reykholti í ágúst 2019 en ríkisstjórn Ísland kom því á fót í tilefni af því að liðin voru 75 ár frá stofnun lýðveldis á Íslandi. Hlutverk RÍM er að styrkja rannsóknir á sviði ritmenningar íslenskra miðalda, m.a. með því að efla rannsóknir á heimildum um ritunarstaði miðaldahandrita á Íslandi og þá sérstaklega á þeim lærdómsmiðstöðvum og klaustrum þar sem ritmenning blómstraði.

Alls bárust tíu umsóknir um styrki, en sótt var um samtals 66,8 milljónir króna. Úthlutunarnefndin veitti sex styrki og eru handhafar þeirra eftirfarandi: Elín Ósk Heiðarsdóttir fyrir hönd Fornleifastofnunar Íslands, 7 milljónir króna vegna verkefnisins „Staðarhóll í Dölum: Höfuðból í minjum, sögu og sagnaritun“, Steinunn Kristjánsdóttir fyrir hönd Háskóla Ísland, 7 milljónir króna vegna verkefnisins „Þingeyraklaustur: Hjarta ritmenningar í fjórar aldir“, Helgi Þorláksson fyrir hönd Oddafélagsins, 7 milljónir króna vegna verkefnisins „Oddarannsóknin“, Viðar Hreinsson fyrir hönd Náttúruminjasafns Íslands, 3,3 milljónir króna vegna verkefnisins „Náttúrur og fornar frásagnir. Um náttúru- og umhverfissýn íslenskra miðaldasagna“, Beeke Stegmann fyrir hönd Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2,7 milljónir króna vegna verkefnisins „Bókagerð í Helgafellsklaustri á fjórtándu öld“ og Axel Kristinsson og Árni Daníel Júlíusson, 3 milljónir króna vegna verkefnisins „Sögur og fylgdarmenn“.

Styrkirnir voru afhentir í Reykholti á uppstigningardag, 21. maí.