Skip to main content

Fréttir

Sumarnámskeið í íslensku eru vinsæl

 

Mánudaginn 3. júlí hófst fjögurra vikna alþjóðlegt sumarnámskeið í íslensku í Háskóla Íslands. Námskeiðið er ætlað erlendum háskólastúdentum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gengst fyrir námskeiðinu í samvinnu við hugvísindasvið Háskóla Íslands og annast skipulagningu þess. Þetta er í þrítugasta og fyrsta skiptið sem slíkt námskeið er haldið.

 

Þátttakendur eru fjörutíu og einn að þessu sinni, frá sautján löndum, flestir frá Bandaríkjunum og Bretlandi. Þeim er skipt í þrjá hópa í íslenskunáminu eftir kunnáttu en allir hafa þegar lagt stund á íslensku heima fyrir, annaðhvort hjá íslenskukennurum eða með aðstoð vefnámskeiðsins Icelandic Online I. Auk þess að nema íslensku gefst stúdentunum tækifæri til að hlýða á fyrirlestra um náttúru Íslands, sögu Íslendinga, menningu á Íslandi og íslensk stjórnmál, heimsækja Alþingi og menningarstofnanir og skoða sig um á sögustöðum.

Alþjóðasvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum skipuleggur þrjú íslenskunámskeið á þessu sumri. Alls taka tæplega níutíu nemar þátt í þessum námskeiðum. Nýlega lauk tveggja vikna íslenskunámskeiði fyrir vesturíslensk ungmenni sem dveljast hér á landi í sumar á vegum Snorraverkefnisins svonefnda. Hinn 29. júní lauk fjögurra vikna norrænu sumarnámskeiði í íslensku sem haldið var á vegum hugvísindasviðs Háskóla Íslands og stofnunarinnar. Norræna ráðherranefndin greiðir kostnaðinn af því námskeiði.

Mikill áhugi er á að læra íslensku víða um lönd, ekki síst í Norður-Evrópu og Norður-Ameríku. Með ári hverju berast fleiri umsóknir um hvers konar íslenskunám fyrir útlendinga hér á landi. Nútímaíslenska er einnig kennd við um fjörutíu erlenda háskóla. Minna má á að nú starfa fimmtán íslenskulektorar erlendis með styrk íslenskra stjórnvalda, þrettán í átta Evrópulöndum, einn í Kanada og einn í Kína. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast umsjón með þessum styrkveitingum.

 

Frá sumarskóla 2016.