Skip to main content

Fréttir

Þúsund nemendur í Eddu

Frá því að safnkennsla hófst í Eddu í lok janúar á þessu ári hefur Marta Guðrún Jóhannesdóttir, sem nýlega tók við starfi safnkennara við Árnastofnun, tekið á móti eitt þúsund nemendum á öllum skólastigum. Að auki hefur safnkennslan náð til þó nokkuð margra barna á landsbyggðinni en hluti af fræðslu- og listsköpunarverkefninu Hvað er með ásum? var heimsókn safnkennara til fjögurra skóla vítt og breitt um landið, þ.e. Grunnskóla Drangsness, Grunnskóla Hólmavíkur, Nesskóla á Neskaupstað og Grunnskóla Snæfellsbæjar á Hellissandi.

Fyrsti skólahópurinn sem tekið var á móti á árinu var hópur fyrsta árs nema við Verslunarskóla Íslands. Síðan þá hafa fjölmargir bæst í hópinn en flestir þeirra sem heimsótt hafa sýninguna í skipulögðum skólaheimsóknum hafa verið nemendur á framhaldsskólastigi enda eru bókmenntir á borð við eddukvæði og Snorra-Eddu kenndar við flesta framhaldsskóla í landinu. Heimsóknin í Eddu dýpkar sannarlega þekkingu nemenda á efninu enda fá þeir að komast í nálægð við handritin sem geyma sjálfar sögurnar og kvæðin sem þeir fást við.

Nú undanfarið hafa grunnskólanemar verið að bætast í hópinn enda höfðar sýningin Heimur í orðum til ólíkra aldurshópa. Á fyrstu hæð Eddu þar sem gengið er inn á sýninguna er safnkennslustofa sem gefur nemendum færi á að vinna að ólíkum verkefnum, kynnast efniviðnum sem elstu handritin voru búin til úr o.s.frv. Markmið safnkennslunnar er að auka þekkingu barna og ungmenna á mikilvægi handritanna í menningu okkar og glæða áhuga þeirra á viðfangsefninu.

Í safnkennslustofunni fara einnig reglulega fram fjölskyldusmiðjur þar sem gestum gefst kostur á að vinna skapandi verkefni í tengslum við safnkost Árnastofnunar og efni sýningarinnar Heimur í orðum.

Tekið er á móti skólahópum alla virka daga nema mánudaga kl. 10–17. Allar upplýsingar um skólaheimsóknir í Eddu má finna á vef sýningarinnar og tekið er á móti bæði fyrirspurnum og bókunum í gegnum netfangið safnkennsla@arnastofnun.is.