Skip to main content

Fréttir

Tuttugasta og fyrsta hefti tímaritsins Orð og tunga er komið út

Tuttugasta og fyrsta hefti tímaritsins Orð og tunga er komið út í ritstjórn Helgu Hilmisdóttur. Efnið er fjölbreytt að vanda og fjalla greinarnar um orðabókafræði, beygingu nafna, myndhverfingar, íslenskt táknmál, viðhorf til nýyrða og síðast en ekki síst málræktarfræði. Auk þess birtist í tímaritinu ein stutt fræðigrein sem fellur í nýjan greinaflokk er hlotið hefur nafnið Smágreinar, og tveir pistlar undir liðnum Málfregnir sem fjalla um nýjungar á sviði hagnýtrar málfræði.

Í ritrýnda hluta heftisins fjalla Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir um nýja veforðabók sem hlotið hefur nafnið Íslensk nútímamálsorðabók. Í greininni segja höfundar frá tilurð orðabókarinnar, helstu eiginleikum hennar og velta upp ýmsum nýjungum sem fylgja rafrænni vinnslu orðabóka. Í síðasta hefti Orðs og tungu fjallaði Katrín Axelsdóttir um fjórar þágufallsmyndir af karlmannsnafninu Þórarinn og aldur þeirra. Í þessu hefti beinir hún sjónum að áhrifsbreytingum þessara mynda og leitar skýringa á tilurð þeirra. Yuki Minamisawa greinir frá rannsókn sinni á myndhverfingum sem tengjast hugtakinu reiði í íslensku. Hún nálgast efnið með því að greina texta úr Markaðri íslenskri málheild (MÍM) og rannsakar með aðstoð tölfræðinnar hvaða myndhverfingar eru miðlægar í íslensku nútímamáli. Þórhalla Beck og Matthew Whelpton beina sjónum að litum í íslensku táknmáli. Í greininni bera þau saman rannsóknir á litaheitum í íslensku táknmáli, íslensku og ensku. Tinna Frímann Jökulsdóttir, Anton Karl Helgason, Eiríkur Rögnvaldsson og Sigríður Sigurjónsdóttir greina frá niðurstöðum rannsóknar sinnar á viðhorfum Íslendinga til nýyrða og aðkomuorða. Í rannsókninni er sjónum beint að orðapörum sem tengjast tölvum og tækni. Ari Páll Kristinsson fjallar um hugmyndir Haugens, Ammons og Spolsky um málstöðlun, málstefnu og málstýringu og setur þær í íslenskt samhengi. Í greininni sýnir hann hvernig hugmyndirnar nýtast við rannsóknir á íslensku málsamfélagi.

Að lokum birtist í heftinu óritrýnt efni. Svavar Sigmundsson fjallar um merkingu viðurnefnis Leifs heppna, Steinþór Steingrímsson kynnir nýja Risamálheild Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Jóhannes B. Sigtryggsson  fer yfir helstu breytingar í reglum Íslenskrar málnefndar um greinarmerkjasetningar.

Eldri árgangar Orðs og tungu eru í opnum aðgangi á Tímarit.is og verður nýjasta heftið aðgengilegt á sama vef innan skamms. Áskrift að tímaritinu má panta hjá Bóksölu stúdenta (orders@boksala.is).